Innlent

Minni virkni í nótt en einn stór skjálfti í morguns­árið

Árni Sæberg skrifar
Stærsti skjálftinn í nótt átti upptök sín Suðaustan Fagradalsfjalls.
Stærsti skjálftinn í nótt átti upptök sín Suðaustan Fagradalsfjalls. Vísir/Egill

Nokkuð færri skjálftar urðu á Reykjanesskaga í nótt en aðeins fjórir mældust þrír að stærð eða stærri. Þar af var einn af stærðinni 4,6 sem reið yfir klukkan hálf sex í morgun.

Þetta kemur fram á jarðhræringatöflu Veðurstofu Íslands en Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, staðfestir niðurstöðurnar í samtali við Vísi.

Sá stærsti var sem áður segir af stærðinni 4,6 en hann varð á 2,7 kílómetra dýpi 3,4 kílómetrum Suðaustan Fagradalsfjalls. Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist nokkuð víða, í Grindavík, Reykjanesbæ, á höfuðborgarsvæðinu og austur að Selfossi.

Hulda Rós segir eftirskjálfta af stærðinni þrír hafa fylgt þeim stóra um mínútu seinna. 

Hún segir að nokkuð minni virkni hafi verið á svæðinu í nótt en undanfarna daga enda hafi verið mikill hasar á svæðinu undanfarið.

Hulda Rós segir erfitt að segja til um það hvort hægari skjálftavirkni þýði að nú styttist í eldgos.

„Þegar gaus síðast þá hægðist á í smá tíma áður en það gaus. Það er erfitt að segja til um hvað þetta þýðir en það virðist nú enn þá vera einhver virkni,“ segir hún.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×