Innlent

Skamm­byssan reyndist leik­fanga­byssa

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Þrír menn úrskurðaðir í gærsluvarðhald vegna morðs í Rauðagerði
Þrír menn úrskurðaðir í gærsluvarðhald vegna morðs í Rauðagerði Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Maður var handtekinn klukkan hálf sex í morgun eftir að lögreglu barst tilkynning um að hann væri vopnaður skammbyssu við Smáralind í Kópavogi. Í ljós kom að um leikfangabyssu væri að ræða. Maðurinn reyndist aðeins sautján ára gamall og var foreldrum og barnaverndarnefnd gert viðvart.

Þá réðst kvenmaður á þrítugsaldri á vegfaranda af handahófi og sló hann í andlitið rétt eftir klukkan þrjú í nótt. Vegfarandinn hlaut ekki mikla áverka en var ósáttur við árásarmanninn, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar.

Lögregla fékk tilkynningu um reykskynjara í húsi á Hverfisgötu klukkan 00.40 og í ljós kom að þar var minniháttar eldur. Vel gekk að slökkva eldinn en grunur er um íkveikju.

Aðeins hálftíma síðar var lögregla kölluð út vegna húsbrots en þar hafði maður ráðist að húsráðanda í Grundarhvarfi og framið þar eignaspjöll. Sá var handtekinn á vettvangi en hann er einnig grunaður um að hafa kveikt í á Hverfisgötunni. Lögregla hefur til skoðunar hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir manninum vegna grunaðra brota.

Klukkan hálf tíu í gærkvöldi var kona handtekin á heimili sínu eftir að hafa beitt heimilisfólk ofbeldi. Hún var undir miklum áhrifum áfengis og var látin gista fangageymslu.

Nokkrir voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og einn var gripinn á 110 kílómetra hraða á Miklubraut, þar sem leyfður hámarkshraði er 60 kílómetra hraði á klukkustund.

„Mjög rólegt var í miðborginni í tengslum við skemmtanalífið og mjög fá mál komu upp tengdu því,“ segir að öðru leyti í dagbókarfærslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×