Innlent

Lyfja­stofnun kallar inn Thera­lene vegna misvísandi upplýsinga

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fyrirmæli frá læknum um skammtastærðir samanborið við sprautu sem fylgir lyfinu geta verið misvísandi og leitt til ofskömmtunar.
Fyrirmæli frá læknum um skammtastærðir samanborið við sprautu sem fylgir lyfinu geta verið misvísandi og leitt til ofskömmtunar. Vísir/Vilhelm

Lyfjastofnun hefur ákvðeið að innkalla undanþágulyfið Theralene. Er það vegna þess að fyrirmæli lækna um skammtastærðir lyfsin samanborið við sprautu sem fylgir lyfinu geta verið misvísandi. Þessar misvísandi upplýsingar hafi og geti leitt til ofskömmtunar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lyfjastofnun. Þar segir að innköllunin nái til lyfjadreifingarfyrirtækja, apóteka og sjúklinga. Lyfið sé mixtúra eða dropar og innihaldi alímemazín 40 mg/ml í 30 ml flösku. Umbúðir og fylgiseðill lyfsins séu á frönsku.

„Ástæða innköllunarinnar er sú að fyrirmæli lækna um skammtastærðir lyfsins samanborið við sprautu sem fylgir lyfinu, geta verið misvísandi. Þá er merking á sprautu sem fylgir lyfinu ekki í samræmi við fylgiseðil. Þessar misvísandi upplýsingar hafa og geta leitt til ofskömmtunar lyfsins með tilheyrandi eitrunaráhrifum,“ segir í tilkynningunni. 

Lyfið sé meðal annars notað við stefntruflunum barna og fullorðinna. Lyfjastofnun hafi haft samband við öll apótek sem hafi afhent lyfið og þau beðin að hafa samband við þá sem fengið hafi lyfið afhent. Þeim sem hafi fengið það afhent er eindregið ráðlagt að skila pakkningunni í næsta apótek. 

Þá sé verið að vinna að því að upplýsa lækna sem ávísað hafa lyfinu um málið. Fram kemur í tilkynningunni að lyfið Theralene hafi verið útvegið í kjölfar skorts á öðru óskráðu lyfi, Alimemazine Orifarm. Alls hafi 66 pakkningar farið í dreifingu til apóteka frá 30. júní síðastliðnum og um tuttugu hafi fengið lyfið afgreitt.

Lyf


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×