Innlent

Barn féll fimm­tán metra út um glugga á fjöl­býlis­húsi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Lögreglan hafði í ýmis horn að líta.
Lögreglan hafði í ýmis horn að líta. Vísir/Vilhelm

Ungt barn féll út um glugga á fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu í dag. Samkvæmt dagbók lögreglu var fallhæðin um fimmtán metrar en ekki kemur fram hver nákvæmur aldur barnsins er. Barnið var flutt á bráðamóttöku til aðhlynningar en er ekki með alvarlegt beinbrot. Innvortis meiðsli eru til skoðunar.

Í morgun hafði lögreglan afskipti af fólksbifreið í miðborginni en bílstjóri var með skrifstofustól ofan á bílnum sem var óbundinn með öllu. Maðurinn hélt um stólinn með annarri hendi á meðan akstri stóð en hann á von á sekt vegna málsins.

Rétt fyrir klukkan þrjú í dag var lögreglu tilkynnt um umferðarslys í Árbæ þar sem ökumaður hafði misst stjórn á bifreið sinni og hafnaði hún utan vega. Ökuréttindi bílstjórans voru afturkölluð þar sem hann uppfyllti ekki lengur skilyrði til þess að vera með ökuréttindi.

Þá voru tveir einstaklingar handteknir í miðborginni rétt fyrir hádegi í dag þar sem þeir reyndu að stela málverki. Báðir aðilar voru í annarlegu ástandi þegar þeir voru handteknir.

Í dagbók lögreglu segir að nokkur erill hafi verið hjá embættinu á höfuðborgarsvæðinu í dag. Alls hafa sextíu mál komið á borð síðan klukkan ellefu í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×