Innlent

Ein og hálf milljón króna á mánuði fyrir að stýra 255 manna hreppi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Lilja Magnúsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps, innsiglar ráðningu Ólafs Þórs Ólafssonar, sveitarstjóra, með handabandi.
Lilja Magnúsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps, innsiglar ráðningu Ólafs Þórs Ólafssonar, sveitarstjóra, með handabandi. Tálknafjörður

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri Tálknafjarðar, fær 1,55 milljón króna í mánaðarlaun samkvæmt nýgerðum ráðningarsamningi. Hann fær einnig 400 kílómetra akstursstyrk og sveitarfélagið greiðir fyrir hann bæði síma og net.

Samkvæmt ráðningarsamningnum má Ólafur ekki taka að sér önnur störf án samþykkis sveitarstjórnar en honum er hins vegar heimilt að gegna áfram starfi formanns knattspyrnudeildar Reynis Sandgerðis. Bæjarins besta greina frá þessu.

Ólafur var fyrst ráðinn sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps í febrúar 2020 og voru laun hans þá 1,4 milljón króna á mánuði. Hins vegar eru launin tengd launavísitölu og hækka hver áramót miðað við þær breytingar. Núverandi ráðningarsamningur gildir til loka maí 2026 og er gagnkvæmur sex mánaða uppsagnarfrestur.

Hærri laun en aðrir í svipað stórum sveitarfélögum

Auk grunnlauna sem eru 1,55 milljón króna á mánuði fær Ólafur ökutækjastyrk upp á 400 kílómetra sem er andvirði 50 þúsund króna á mánuði og sveitarfélagið greiðir bæði síma og net fyrir hann. Íbúafjöldi Tálknafjarðarhrepps var 255 manns þann 1. janúar 2022 samkvæmt vef Sambands íslenskra sveitarfélaga. Laun Ólafs gera því um sex þúsund krónur á hvern íbúa.

Samband íslenskra sveitarfélaga gerði könnun á kjörum sveitarstjóra sveitarfélaga í mars síðastliðnum. Af 69 sveitarfélögum svöruðu 56 spurningalistanum eða um 80 prósent. Samkvæmt könnuninni eru tólf sveitarfélög með 200-499 íbúa og af þeim svöruðu níu spurningalistanum. 

Sveitarstjórar í sveitarfélögum með 200-499 íbúa voru með mánaðarlaun á bilinu 400 þúsund til 1,3 milljón króna. Þá voru hlunnindi sveitarstjóra, þ.e. greiðslur utan beinna launagreiðslna, á bilinu 25 til 125 þúsund. Miðað við þá könnun fær Ólafur nokkuð hærri laun en launahæsti sveitarstjórinn sem svaraði könnuninni, eða 250 þúsundum krónum meira.

Ekki náðist í sveitarstjórnarfulltrúa Tálknafjarðarhrepps við gerð fréttarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×