Innlent

Bjartsýn á að komast í höfn

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir Menningar- og viðskiptaráðherra segist bjartsýn.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir Menningar- og viðskiptaráðherra segist bjartsýn. Vísir/Egill Aðalsteinsson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segir vandasama siglingu fram undan varðandi hagstjórnina enda hafi landsmenn ekki séð aðrar eins verðbólgutölur í langan tíma.

Lilja mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun og ræddi um innihald greinar sem hún skrifaði í Morgunblaðið sem ber heitið „Vandasöm sigling.“

„Tilgangurinn með þessari grein er fyrst og síðast að hvetja okkur öll til þess að ná utan um þessa stöðu öll saman, um verðbólguþrýsinginn. Vegna þess að það er svo að verðbólgan í raun og veru hefur svo ofboðslega slæm áhrif á allt hagkerfið þegar öll verð eru komin á fleygiferð og þá er hætta að við náum ekki tökum á þessu. Að við séum þá að fara inn í erfitt tímabil varðandi hagstjórn á næstu tvö til þrjú árin.“

Lilja segir verðbólguþróunina eiga sér stað á heimsvísu og hafi Bandaríkin ekki séð jafn háar verðbólgutölur og núna í yfir fjörutíu ár.

„Vegferðin núna er auðvitað að allir líti í eigin barm og sér í lagi auðvitað stjórnvöld og fyrirtæki og fólkið í landinu, hvernig náum við tökum á þessu.“

„Ég tel að seðlabankinn okkar, hann fór tiltölulega hratt í stýrivaxtalækkun og svo í stýrivaxtahækkun og ég held að það vinni með okkur á þessum tímapunkti að við séum með sjálfstæða peningastefnu og sjálfstæðan seðlabanka.“

Lilja segist bjartsýn á framtíðina en þó með miklum fyrirvara. „Ég er líka bjartsýn á framtíðina vegna þess að hagkerfið okkar hefur sýnt alveg ótrúlegan kraft, það er fimm prósenta hagvöxtur í ár.“ 

Hún segir að allar útflutningsgreinar séu að gera það mjög gott. „Þetta hefur auðvitað valdið því að gengið hefur verið mjög stöðugt.“

Aðspurð hvenær við getum búist við að komast í höfn segir Lilja: „Ég tel að ef það verður ekki einhver svona verðbólguspírall upp á við þá getum við alveg verið komin þangað eftir 12, 18 mánuði, ég segi þetta með öllum heimsins fyrirvörum.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×