Enski boltinn

Liverpool strákurinn kom enska 19 ára landsliðinu í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jarell Quansah fagnar sigurmarki sínu ásamt liðsfélögunum Dane Scarlett og Alex Scott en sá síðarnefndi skoraði fyrra markið í sigrinum á Ítölum.
Jarell Quansah fagnar sigurmarki sínu ásamt liðsfélögunum Dane Scarlett og Alex Scott en sá síðarnefndi skoraði fyrra markið í sigrinum á Ítölum. Getty/Christian Hofer

England og Ísrael munu spila til úrslita um Evrópumeistaratitil nítján ára landsliða en undanúrslitaleikirnir fóru fram í gær.

Ísrael vann 2-1 sigur á Frökkum og Englendingar unnu 2-1 sigur á Ítölum. Úrslitakeppnin er spiluð í Slóvakíu og úrslitaleikurinn fer fram á föstudaginn.

Alex Scott, 18 ára miðjumaður Bristol City og Jarell Quansah, 19 ára miðvörður Liverpool skoruðu mörk enska liðsins í undanúrslitaleiknum.

Fabio Miretti hafði komið Ítalíu í 1-0 á 12. mínútu með marki úr víti en Scott jafnaði á 58. mínútu og Liverpool strákurinn skoraði svo sigurmarkið með skalla eftir horn átta mínútum fyrir leikslok.

England og Ísrael voru saman í riðli í keppninni og þeir ensku unnu innbyrðis leik liðanna 1-0 með marki Liam Delap sem er leikmaður Manchester City.

Þetta er aðeins í annað skiptið sem Ísraelsmenn komast í úrslitakeppnina en síðast, árið 2014, þá tapaði liðið öllum sínum leikjum.

Mörkin í sigrinum á Frökkum voru sjálfsmark og mark frá El Yam Kancepolsky sem spilar með Hapoel Tel Aviv.

Enska landsliðið vann þessa keppni árið 2017 en þá voru í aðalhlutverki hjá liðinu leikmenn eins og Mason Mount, Reece James, Aaron Ramsdale og Ryan Sessegnon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×