Innlent

Drógu tvo vélar­vana báta að landi og björguðu ör­­magna göngu­­mönnum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Björgunarskipið Sjöfn dregur skemmtibátinn að landi.
Björgunarskipið Sjöfn dregur skemmtibátinn að landi. Landsbjörg

Tvisvar þurfti að kalla út björgunarskip Landsbjargar í dag, Gísli Jóns var kallaður út frá Ísafirði vegna vélarvana strandveiðibáts og Sjöfn í Reykjavík var kölluð út vegna vélarvana skemmtibáts við Viðey. Björgunarsveitarmenn þurftu einnig að bjarga örmagna göngumönnum á Sprengisandsleið og aðstoða mann sem hrasaði við Hengifoss.

Björgunarsveitir Landsbjargar stóðu í ströngu í dag.

Snemma í morgun var björgunarskipið Gísli Jóns kallað út frá Ísafirði vegna vélarvana strandveiðibáts sem var staddur 10 sjómílur vestur af Barða milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar. Björgunarskipið sótti bátinn og tók í tog til Bolungarvíkur.

Klukkan hálf tvö var björgunarbáturinn Sjöfn í Reykjavík einnig kallaður út vegna vélarvana skemmtibáts sem varð vélarvana suður af Viðey. Skemmtibáturinn var tekinn í tog og dreginn til hafnar og sakaði engann um borð.

Myndir frá björguninni við Viðey í dag.Landsbjörg

Einn sem hrasaði og nokkrir örmagna

Stuttu síðar var björgunarsveit frá Héraði kölluð út til aðstoðar eftir að maður hafði hrasað við Hengifoss.

Rétt fyrir hádegi í dag barst Neyðarlínunni tilkynning frá örmagna göngumönnum sem voru staddir á Sprengisandsleið og höfðu verið á göngu í um viku. Þeir voru orðnir kaldir og hraktir eftir íslenska suddann enda hefur rignt undanfarna daga á hálendinu og rignir enn. 

Hópur björgunarsveitarfólks á hálendisvakt í Landmannalaugum var kallaður út og fór til mannanna sem voru staddir í grend við skálann í Versölum. 

Þegar fréttin var skrifuð voru björgunarsveitarmennirnir komnir að mönnunum og hálfnaðir með að koma þeim til Landmannalauga þar sem á að hlúa að þeim.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×