Erlent

Drónar nýttir til að flytja lyf og sýni á Grænlandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Falck notar dróna frá fyrirtækinu Rigitech í fluginu. Vænghafið á þessum er 2,8 metrar.
Falck notar dróna frá fyrirtækinu Rigitech í fluginu. Vænghafið á þessum er 2,8 metrar. Falck/Rigitech

Grænlensk heilbrigðisyfirvöld í samstarfi við danska sjúkraflutningafyrirtækið Falck hyggjast á næstu mánuðum prófa notkun dróna við að flytja lyf og greiningarsýni milli byggða á Grænlandi. Tilgangur verkefnisins er að kanna hvernig drónar geta styrkt heilbrigðiskerfið á stöðum þar sem innviðir eru áskorun og langt er í næsta sjúkrahús en landið er án vegakerfis.

Í fyrstu munu drónar flytja lyf eins og sýklalyf og greiningarsýni milli aðalsjúkrahúss Grænlands í Nuuk, Dronning Ingrid’s Hospital, og byggðanna Kapisillit og Qeqertarsuatsiaat. Fyrrnefnda þorpið er djúpt inni í Nuuk-firði, um 75 kílómetra frá höfuðstaðnum, en hitt er á eyju undan vesturströnd Grænlands, um 150 kílómetra suður af Nuuk.

„Þar sem vegalengdir milli byggða og næsta sjúkrahúss eru langar mun notkun dróna hjálpa til við að tryggja hraðari greiningu og gera það auðveldara og fljótlegra að fá lífsnauðsynleg lyf yfir langar vegalengdir,“ segir í fréttatilkynningu frá Falck.

Aðalsjúkrahús Grænlands, Dronning Ingrids Hospital í Nuuk.Mats Bjerde/Norden.org

Fyrirtækið, í samstarfi við dönsk heilbrigðisyfirvöld, þarlend flugmálayfirvöld og fleiri aðila, tók tímamótaskref í notkun heilbrigðisdróna þann 30. maí síðastliðinn þegar reglubundið drónaflug hófst milli sjúkrahússins í Svendborg á Fjóni og eyjunnar Ærø en þar búa um sexþúsund manns. Flugið tekur 35 mínútur en loftlínan er um 50 kílómetrar og flýgur dróninn í 80 metra hæð.

Litið er á þetta sem þriggja ára tilraunaverkefni og styrkir nýsköpunarsjóður Danmerkur það með 260 milljónum íslenskra króna. Til að byrja með flytur dróninn einkum blóðsýni frá heilsugæslunni á Ærø sem fara eiga á rannsóknarstofu í Svendborg eða á háskólasjúkrahúsið í Odense. Með drónafluginu vonast menn til að spara bæði tíma og mikla fjármuni en sýni hafa til þessa verið flutt á milli með bíl og ferju, sem tekur um eina og hálfa klukkustund, auk þess sem tíðni ferjusiglinga er takmörkuð. Stefnt er á að prófa drónaflug á fleiri stöðum innan Danmerkur.

Frá fyrsta drónafluginu milli sjúkrahússins í Svendborg og Ærø þann 30. maí síðastliðinn.Rigitech

Vel má ímynda sér að drónar gætu með sama hætti gagnast íslenskri heilbrigðisþjónustu, til dæmis ef þeir væru gerðir út frá fjórðungssjúkrahúsum til að sinna fámennum byggðum með takmarkaðar samgöngur. Dróni frá Akureyri gæti skutlað lyfjum út í Hrísey og Grímsey, dróni frá Ísafirði sinnt Djúpinu og Árneshreppi og dróni úr Neskaupstað flogið í Mjóafjörð og Borgarfjörð. Og ekki aðeins í dreifbýli. Spyrja má hvort drónar gætu nýst til að flytja sýni til dæmis milli sjúkrahússins á Akranesi og Landspítalans í Reykjavík.

Sjúkraflutningafyrirtækið Falck hefur raunar enn stærri drauma. Það stefnir að því innan þriggja ára verði unnt að nota dróna til að fljúga með heilbrigðisstarfsmenn í vitjanir til sjúklinga.


Tengdar fréttir

Ófært í Árneshrepp í fyrra fallinu í ár

Ófært varð í Árneshrepp í gær í fyrsta skipti í vetur, þetta fámennasta sveitarfélag landsins sem telur 42 íbúa. Oddviti sveitarfélagsins hélt sig heima í gær og lagði ekki í bílferðina úr Djúpavík á skrifstofuna í Norðurfirði.

Sagt var að í Mjóafirði byggju bara nokkrar þrjóskufullar manneskjur

„Í Mjóafirði búa ekkert nema nokkrar þrjóskufullar manneskjur sem bíða dauða síns,“ segir Sigfús Vilhjálmsson, útvegsbóndi á Brekku, og skellir upp úr, en tekur fram að þetta hafi Jónas Árnason sagt. Sigfús segist alls ekki viðurkenna að þetta eigi við um íbúa Mjóafjarðar.

150 kílóa dróna flogið yfir Egils­staða­flug­völl

Dróna á vegum norska fyrirtækisins Norwegian Special Mission (NSM) hefur verið flogið í nágrenni Egilsstaðaflugvallar síðustu daga. Markmið verkefnisins er að safna gögnum sem styðja við að drónar verði notaðir við flugprófanir á búnaði flugvalla í framtíðinni.

Dróninn á Egilsstöðum þegar sannað gildi sitt

Mannlaust loftfar, sem notað verður næstu mánuði til leitar, björgunar- og eftirlitsstarfa hér við land hefur þegar sannað gildi sitt að mati forstjóra Landhelgisgæslunnar og segir tæknina vera framtíðina í þessum efnum



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×