Innlent

Prjónahátíð á Blönduósi um helgina

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Svanhildur Pálsdóttir, sem er viðburðastjóri Prjónahátíðarinnar á Blönduósi um helgina.
Svanhildur Pálsdóttir, sem er viðburðastjóri Prjónahátíðarinnar á Blönduósi um helgina. Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson

Fjölmenni er á Blönduósi um helgina, þó aðallega konur á öllum aldri því þar stendur yfir prjónahátíð. Markmiðið hátíðarinnar er að sameina prjónafólk og skapa því vettvang til þess að hittast og miðla prjónasögum, nýjum hugmyndum og aðferðum við prjónaskapinn.

Prjónahátíðin er haldin á vegum Textílmiðstöðvar Íslands á Blönduósi en hún hefur verið haldin í nokkur ár alltaf aðra helgina í júní. Hátíðin stækkar og stækkar með hverju ári en núna um helgina verða til dæmis haldin 25 mismunandi prjónanámskeið og áhugaverðir fyrirlestrar eru á sínum stað, auk nokkurra örkynninga á prjónatengdum viðfangsefnum. Þá er sérstakt garnatorg í íþróttamiðstöðinni og þar eru líka um 30 söluaðilar að selja spennandi vörur fyrir prjónalífið.

Foreldrar þessara tvíbura frá Stokkseyri eru mætt á Blönduós til að taka þátt í hátíð helgarinnar.Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson

Svanhildur Pálsdóttir, er viðburðastjóri Prjónahátíðarinnar.

„Okkur finnst svo gaman að hittast þannig að það er alveg tilvalið að halda prjónahátíð. Við erum með mjög fjölbreytta dagskrá því það er mjög margt um að vera alla helgina. Í íþróttamiðstöðinni er til dæmis svokallað garntorg og þar eru 30 söluaðilar, sem ætla að selja garn og allskonar prjónatengdar vörur. Þar er líka stórt prjónakaffihús og þar eru sýningar, segir Svanhildur og bætir við:

Prjónagleðin er alltaf haldin á Blönduósi aðra helgina í júní.Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Á morgun, sunnudag er t.d. prjónamessa og prjónaganga, þannig að það er endalaust eitthvað af viðburðum. Það eru líka sýningar í Húnabúð, þannig að fólk er svo mikið að taka þátt núna, bæjarbúar að fitja upp á einhverju skemmtilegu og vera með okkur í þessu, sem að skiptir ótrúlega miklu máli.“

En geta allir lært að prjóna?

Já, það geta allir lært að prjóna og þessi hátíð er fyrir alla,“ segir Svanhildur kampakát yfir vinsældum hátíðarinnar.

Búið er að skreyta víða utandyra á Blönduósi um helgina með prjóni hér og þar á skemmtilegan hátt.Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×