Lífið

Nýtt lag: Sannkallað sumarmarmelaði með dass af Frikka Dór

Elísabet Hanna skrifar
Lagið sömdu Birgir Steinn Stefánsson, Ragnar Már Jónsson og Friðrik Dór.
Lagið sömdu Birgir Steinn Stefánsson, Ragnar Már Jónsson og Friðrik Dór. Egill Jóhannesson & Vilhelm

Popp dúóið Draumfarir og Friðrik Dór Jónsson hafa sameinað krafta sína í sumarsmellinum Nær þér. Grípandi laglínur og skemmtilegur texti sem saminn er af þeim sjálfum gera lagið upplagt fyrir rúntinn í sólinni.

Ragnar Már sá um útsetningu lagsins. Ari Bragi Kárason sá um blástur í laginu og einnig komu fleiri góðir hljóðfæraleikarar að því. Draumfarir hafa verið duglegir að gefa úr lög síðustu tvö árin og má þar nefna lagið Ást við fyrstu Seen sem þeir unnu að með Króla en það varð eitt mest spilaða lagið á íslenskum útvarpsstöðvum árið 2020.

Blaðamaður heyrði í Birgi Stein og fékk að heyra meira um lagið Nær þér:

Hvernig gekk samstarfið?

Samstarfið gekk vel. Það er alltaf gaman að semja tónlist með hæfileikaríku tónlistarfólki eins og Frikka. Við sendum Frikka demo af laginu þar sem við skildum eftir smá bút úr laginu fyrir hann. 

„Við vildum fá þetta Frikka DNA inn í lagið og ég er virkilega ánægður með útkomuna.“

Hver var innblásturinn að textanum?

Textinn er voða hefðbundinn ástarsambands texti þar sem tveir einstaklingar eru að stinga saman nefjum. Stemningin og textinn í laginu er lýsandi, finnst mér, þegar tveir einstaklingar finna fyrir neistanum sem myndast þeirra á milli.

Hverjar eru hinar fullkomnu aðstæður til þess að hlusta á lagið?

„Fyrir mig hittir það beint í mark t.d. í bíltúr með rúðurnar skrúfaðar niður á góðum sumardegi.“ 

Einnig virkar það vel í góðum græjum á skemmtistað vegna þess að lagið grúvar vel og er að mínu mati sannkallað sumarmarmelaði.

Hvað er framundan hjá ykkur?

Við höfum þessa dagana og síðustu mánuði unnið hörðum höndum á að klára okkar fyrstu breiðskífu og vonandi getum við haldið alvöru útgáfutónleika í lok sumars eða byrjun hausts. Bandið var stofnað í Covid svo giggin hafa verið af skornum skammti hingað til. 

„Okkur þyrstir í að koma loksins saman fyrir fullu húsi og fá fólk til að dilla sér og syngja með.“


Tengdar fréttir

Draum­farir gefa út plötuna Sögur af okkur

Hljómsveitin Draumfarir gaf út fimm laga EP plötuna Sögur af okkur, síðasta föstudag. Hljómsveitina skipa þeir Ragnar Már Jónsson og Birgir Steinn Stefánsson.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.