Innlent

Nagla­dekk kostuðu öku­menn um fjórar milljónir króna um helgina

Árni Sæberg skrifar
Umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið á stúfunum um helgina í leit að nagladekkjum.
Umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið á stúfunum um helgina í leit að nagladekkjum. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur byrjað að sekta ökumenn sem hafa trassað að taka nagladekk undan bílum sínum. Lögreglan sektaði um fimmtíu ökumenn um helgina sem skilar um fjórum milljónum króna í ríkissjóð.

Nagladekk eru bönnuð á tímabilinu 15. apríl til 31. október nema aðstæður gefi tilefni til annars. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gaf örlítinn frest þetta árið og byrjaði ekki að sekta fyrir nagladekkjanotkun fyrr en 18. maí síðastliðinn.

Í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru helstu verkefni helgarinnar tíunduð. Þar kemur meðal annars fram að afskipti hafi verið höfð af um fimmtíu ökumönnum sem óku um á negldum dekkjum.

Sekt fyrir hvert neglt dekk er tuttugu þúsund krónur og því áttatíu þúsund krónur fyrir hvern bíl, en þeir eru flestir á fjórum dekkjum. Með snöggum útreikningi kemur í ljós að sektir lögreglunnar fyrir nagladekkjanotkun hafi numið um fjórum milljónum króna um helgina.

„Ökumenn, sem enn eru á ökutækjum búnum nagladekkjum, eru hvattir til að kippa því í lag hið snarasta svo komast megi hjá sektum,“ segir lögreglan á Facebook.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.