Innlent

Soffía frænka ræður öllu í fjósinu á Snorrastöðum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Kristján Ágúst Magnússon, kátur kúabóndi á bænum Snorrastöðum í Borgarbyggð.
Kristján Ágúst Magnússon, kátur kúabóndi á bænum Snorrastöðum í Borgarbyggð. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Soffía frænka úr Kardemommubænum kemur víða við, því nú er hún mætt í fjós á bæ í Borgarbyggð þar sem hún ræður ríkjum og stjórnar öllum kúnum í kringum sig með harðri hendi.

Á Snorrastöðum í Kolbeinsstaðahreppnum hinum forna, nú Borgarbyggð er myndarlegt kúabú þar sem Kristján Ágúst Magnússon og Brandís Margrét Hauksdóttir eru kúabændur, auk þess að vera með ferðaþjónustu á bænum.

Kristján keyrir rúllurnar á fóðurganginn en fjórar rúllur duga í tvo daga fyrir gripina.

Sumarið leggst vel í fjölskylduna á Snorrastöðum hvað varðar mjólkina og ferðamennina.

„Já, ég segi fyrir okkur, bæði ætlum við að láta kýrnar mjólka vel og svo erum við náttúrlega líka með ferðaþjónustu, það hjálpar og lítur vel út,“ segir Kristján.

Kristján segir að kúabúskapur hafi breyst ótrúlega mikið á síðustu 25 til 30 árum.

„Já, já, við byrjum hér, ég og konan mín fyrir 30 árum síðan. Það er bara himin og haf þarna á milli. Vinnuaðstæður og velferð dýra og allt það. Búin hafa stækkað gríðarlega og þeim fækkar náttúrulega líka.“

Fjósið er nýlegt og glæsilegt á Snorrastöðum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Eins og mannfólkið þá eru kýrnar mismunandi karakterar. Það þekkir Kristján vel því Soffía frænka, sem á nöfnu úr Kardemommubænum en þær eru mjög líkar í skapi.

„Hún er elst í hópnum og þegar hún kemur inn í biðplássið í mjaltabásinn þá ryður hún öllum frá og þær víkja allar fyrir henni. Það er mikið talað um einelti hjá mannfólki en það er ekki síður hjá gripum í fjósum, ekki síst í lausagöngufjósum“, segir Kristján enn fremur og drífur sig í kjölfarið að sækja fleiri rúllur í kýrnar og handa Soffíu til að halda henni góðri.

Soffía frænka, sem ræður ríkjum í fjósinu á Snorrastöðum.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×