Enski boltinn

Richarlison gaf skít í Carragher í nótt

Sindri Sverrisson skrifar
Stuðningsmenn Everton mættir inn á til að fagna með Richarlison á Goodison Park í gærkvöld.
Stuðningsmenn Everton mættir inn á til að fagna með Richarlison á Goodison Park í gærkvöld. Getty

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Richarlison sá ástæðu til að hnýta í sparkspeking Sky, gamla Liverpool-manninn Jamie Carragher, í nótt.

Richarlison átti sinn þátt í að tryggja Everton áframhaldandi veru í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöld með marki í frábærum endurkomusigri gegn Crystal Palace, 3-2, í næstsíðasta leik Everton á tímabilinu.

Eftir leik, eða nánar tiltekið klukkan hálftvö í nótt, birti Richarlison svo skrif á Twitter þar sem hann sagði Carragher að skrúbba á sér skoltinn áður en hann talaði um sig og Everton. Þá kvaðst Richarlison ekki hafa neina virðingu fyrir Carragher og birti að lokum kúkakall.

Manchester United-manninum Gary Neville, kollegi Carraghers hjá Sky, virðist hafa haft gaman af:

Í síðasta mánuði, þegar Everton tapaði 2-0 fyrir Liverpool, setti Carragher út á Richarlison í beinni útsendingu eftir að sá brasilíski lá á vellinum vegna meiðsla. 

„Í alvörunni, stattu upp. Ég sé hann láta svona í hverri viku! Stattu upp og haltu áfram. Hann er búinn að leggjast niður þrisvar sinnum nú þegar og það er ekkert að honum,“ sagði Carragher í útsendingunni en dró svo í land eftir að hafa horft á endursýningu.

Þetta virðist enn hafa angrað Richarlison í gær þrátt fyrir að Everton væri þá búið að tryggja sér áframhaldandi veru í efstu deild og hann búinn að skora sex mörk í síðustu níu leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×