Sigurður Ingi lýsir þeirri skoðun sinni á samfélagsmiðlum að eins og staðan sé nú hafi ekki verið hægt að fylgjast með leigusamningum og þróun leiguverðs. En staða leigjenda hefur verið mjög til umfjöllunar að undanförnu.
„Ef þingheimur samþykkir frumvarpið þá verður breyting á, því leigusölum verður skylt að skrá samninga í opinberan húsnæðisgrunn. Slíkt gefur raunhæfari mynd af leigumarkaði og bætir réttarstöðu leigjenda.“
Enn ein nefnd vel setts millistéttarfólks
Skráningarskyldan mun nýtast almenningi, að sögn Sigurðar Inga; gera leigumarkaðinn gagnsærri og hægt verður að nálgast upplýsingar um markaðsleigu húsnæðis eftir staðsetningu.
„Upplýsingar um leiguverð mun nýtast við mat á því hvort leigufjárhæð eða síðari hækkun hennar sé sanngjörn og eðlileg í garð beggja samningsaðila. Samkvæmt gildandi rétti er markaðsleiga sambærilegs húsnæðis það meginviðmið sem líta ber til við mat á því hvort leigufjárhæð sé sanngjörn og eðlileg en skort hefur á að aðilar leigusamnings geti nálgast áreiðanlegar upplýsingar um markaðsleigu hverju sinni.“
Gunnar Smári segir þetta minna á aðgerðir ríkisstjórnarinnar gagnvart fátækt; að mynda enn eina nefnd vel setts millistéttarfólks um fátækt. „Framlag hennar gagnvart ójöfnuði var að búa til vefsíðu um upplýsingar upp úr skattframtölum. Nú mætir hún neyðarástandi á leigumarkaði með því að skylda leigjendur til að þinglýsa leigusamningum. Mun það bæta stöðu leigjenda? Nei.“
Meint andúð ráðherra á fátæku fólki
Að mati Gunnars Smára, en skoðun sína tjáir hann á Facebook-vettvangi Sósíalista, lýsir þetta einhvers konar þráhyggju, þeirri trú að markaðsbrestur séu ekki vegna einokunar og fákeppni eða yfirburðastöðu seljenda og leigusala, heldur sé vandinn skortur á upplýsingum. „Ef upplýsingar flæða munu markaðurinn átta sig og jafna sig. Hannes Hólmsteinn trúir þessu ekki einu sinni lengur, hann hefur snúið sér að fasisma til verndar auð hinna ríku.“
Þá segir Gunnar Smári allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar bera með sér andúð á fátæku fólki, sem ráðherrar hlusti aldrei á. „Og þegar þeir gera það eru þeir sannfærðir um að það sé að ljúga, trúa því ekki að fátækt fólk segi satt, trúa bröskurunum frekar. Það er neyðarástand á húsnæðismarkaði og það er ljóst að ástandið á eftir að versna hratt næstu vikur og mánuði. Þessu mætir ríkisstjórnin með frumvarpi um skylduskráningu leigusamninga. Guð hjálpi leigjendum.“