Fótbolti

Íslendingaliðin unnu stórsigra í lokaumferð þýsku deildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Karólína Lea lagði upp fimmta mark Bayern í dag.
Karólína Lea lagði upp fimmta mark Bayern í dag. Daniel Kopatsch/Getty Images

Íslendingalið Bayern München og Wolfsburg unnu stórsigra í lokaumferð þýsku úrvalsdeildar kvenna í fótbolta í dag. Bayern vann 5-0 sigur gegn Potsdam og Wolfsburg skoraði sjö gegn Bayer Leverkusen.

Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Bayern, en Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom inn af varamannabekknum þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Heimakonur í Bayern settu tóninn snemma og voru komnar í 4-0 þegar flautað var til hálfleiks. Þær bættu svo fimmta markinu við á lokamínútum leiksins þegar Karólína Lea lagði upp fyrir Leu Schuller.

Bayern endar í öðru sæti deildarinnar með 55 stig, fjórum stigum minna en Wolfsburg sem tryggði sér titilinn í seinustu umferð.

Wolfsburg vann einmitt afar öruggan 7-1 sigur gegn Bayer Leverkusen, en Sveindís Jane Jónsdóttir var ekki í leikmannahóp Wolfsburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×