„Algjört metár. Síðasta heila árið sem við vorum að taka á móti skemmtiferðaskipum var 2019. Þá komu 126 skip,“ segir Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar.
Þannig virðist ljóst að ferðaþjónustan ætli að verða lygilega fljót að taka við sér eftir tvö erfið ár í heimsfaraldri. Skipin verða nefnilega miklu fleiri í ár.

„Upphaflega var bókunarstaðan 160 skip. Það hefur nú eitthvað kvarnast úr því eins og gerist nú alltaf á hverju ári. En við erum samt með milli 150 og 160 skemmtiferðaskip staðfest hingað til Ísafjarðar núna í sumar,“ segir Guðmundur.
Hafa þurft að vísa skipum frá
Svo fljótur er skemmtiferðaskipabransinn að taka við sér að Ísafjarðarhöfn getur hreinlega ekki tekið á móti öllum sem vilja.
„Við erum inn í framtíðina nú þegar byrjuð að vísa skipum frá eða biðja skipafélögin að taka til aðra daga þar sem þetta er allt að fyllast,“ segir Guðmundur.
Við ræddum við hann í Kvöldfréttum Stöðvar 2 um helgina og hittum hann við hafnarsvæðið þar sem nú standa yfir framkvæmdir til að stækka höfnina:
Framkvæmdirnar kosta einn milljarð króna.
„Já, við erum núna í stórframkvæmdum. Við erum að framkvæma á höfninni fyrir milljarð í þessari einstöku framkvæmd sem er lenging á Sundabakka okkar aðal viðlegukannti fyrir fraktskip og skemmtiferðaskip,“ segir Guðmundur.

Á myndinni hér að ofan sést Sundabakki þar sem tekið er á móti skemmtiferðaskipunum neðst á myndinni. Og nú er verið að fylla í svæðið sem sést til vinstri til að stækka höfnina.
Það mun auka getu bæjarins til að geta tekið á móti skemmtiferðaskipum til muna.
„Við erum að stefna að því að geta verið með tvö mjög stór skemmtiferðaskip við bryggju á sama tíma sem að í beinu framhaldi eykur tekjurnar og gerir lífið fallegra,“ segir Guðmundur.