Enski boltinn

Luis Díaz snéri leiknum á hvolf og breytti öllu fyrir Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Díaz kom til bjargar í hálfleik eftir skelfilegan hálfleik Liverpool liðsins á móti Villarreal og sá öðrum fremur til þess að liðið fór í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Luis Díaz kom til bjargar í hálfleik eftir skelfilegan hálfleik Liverpool liðsins á móti Villarreal og sá öðrum fremur til þess að liðið fór í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. AP/Alberto Saiz

Innkoma Luis Díaz gerbreytti öllu fyrir Liverpool í Meistaradeildinni í gærkvöldi og það sést vel á tölfræði leiksins.

Kaup Liverpool á Luis Díaz í janúar ætla heldur betur að vera félaginu gæfusöm en enn eitt dæmið um það kom í undanúrslitaleiknum á móti Villarreal í gær.

Með krafti sínum, hraða, vinnusemi og yfirferð þá kemur þessi 25 ára Kólumbíumaður flestum vörnum í vandræði og það sannaðist enn og aftur í gærkvöldi.

Luis Díaz þurfti að sætta sig við að byrja á varamannabekknum en spænska liðið keyrði yfir Liverpool í fyrri hálfleiknum og komst í 2-0. Staðan var því orðin 2-2 samanlagt og sæti í úrslitaleiknum í hættu.

Jürgen Klopp átti hins vegar ás upp í erminni og hann sendi Luis Díaz inn á völlinn í hálfleik. Díaz leysti þar af Diogo Jota.

Liverpool skoraði þrjú mörk í seinni hálfleiknum og tryggði sér sæti í úrslitaleiknum í París.

Liverpool hafði aðeins náð tveimur skotum í öllum fyrri hálfleiknum en náði átta skotum á fyrstu 25 mínútunum eftir að Luis Díaz kom inn á völlinn.

Díaz skoraði eitt af þessum þremur mörkum en innkoma hans hreinlega sneri leiknum á hvolf. Það sést vel á allri tölfræði eins og í þessu grafi hér fyrir neðan yfir sóknarógnum liðanna í leiknum.

Villarreal var með algjöra yfirburði í fyrri hálfleiknum en eftir að Díaz mætti inn á grasið tók Liverpool yfir leikinn. Liverpoool átti þrettán af fimmtán skotum sínum eftir að Klopp setti Kólumbíumanninn inn á völlinn.

Luis Díaz átti sjálfur fjögur skot og reyndi fjórum sinnum að taka menn á í þessum hálfleik. Það var tvöfalt meira en allt liðið hans gerði í öllum fyrri hálfleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×