Innlent

Telja hestinn hafa verið aflífaðan á mannúðlegan hátt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Níðstöngin sem reist var við Skrauthóla.
Níðstöngin sem reist var við Skrauthóla. Aðsend

Sérfræðingar Matvælastofnunar telja að hesthöfuð, sem fannst á stöng við Esjurætur á föstudaginn, hafi verið af hesti sem var aflífaður með mannúðlegum hætti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá MAST.

Lögregla hefur til rannsóknar níðstöng með hestshaus sem komið var upp við Skrauthóla á föstudaginn. Hjón sem búa á Skrauthólum töldu til að byrja með að um væri að ræða hótun í þeirra garð eftir erfið orðaskipti við nágranna sína hjá Sólsetrinu.

Nafnlaus ábending um helgina sneri dæminu á hvolf. Hjónin segja að níðstönginni hafi verið beint að Sólsetrinu vegna meints andlegs ofbeldis og kynferðislegs ofbeldis sem eigi að hafa átt sér stað hjá Sóletrinu.

„Það er enginn grunnur, það er enginn sannleikur bak við þessi orð,“ sagði Linda Mjöll Stefánsdóttir, stofnandi Sólsetursins. Í Sólsetrinu fara fram óhefðbundnar athafnir á borð við kakó-, dans- og tantraviðburði.

Í tilkynningu MAST segir að aðkoma Matvælastofnunar að rannsókn lögreglu hafi eingöngu miðað að því að kanna hvort vísbendingar væru um að hesturinn hefði verið aflífaður með ólögmætum hætti.

„Farið var með hausinn í rannsókn á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum á Keldum. Niðurstaða rannsóknarinnar bendir til þess að hesturinn hafi verið aflífaður á mannúðlegan hátt, með skoti eða boltabyssu í hausinn,“ segir í tilkynningu MAST.

Aðkomu Matvælastofnunar að rannsókninni hvað dýravelferð varðar er lokið.


Tengdar fréttir

Níð­stöngin hafi tengingu við „ljóta og myrka galdra­vitund“ for­tíðarinnar

Stofnandi Sólsetursins grunar ákveðinn hóp tengdan seiðkonu um að hafa reist níðstöng með hestshaus við Skrauthóla á föstudag en hún kveðst ekki ætla tilkynna lögreglu um það. Hún segir nágranna sína ekki eiga neinn þátt í málinu og að það tengist ekki deilum þeirra á milli. Hún bindur vonir við að hægt sé að leysa málið án aðkomu lögreglu.

„Þetta er bara líflátshótun“

Kona sem þurfti að flýja heimili sitt eftir að níðstöng með hrossahaus var þar komið upp segist óttast að snúa aftur heim. Hún telur ljóst að um líflátshótun sé að ræða og að mögulegt sé að nágrannar þeirra hafi verið að verki.

Lögregla rannsakar níðstöng við Skrauthóla

Níðstöng með hrosshaus var reist við Skrauthóla nærri Esjurótum. Íbúar á svæðinu eru í áfalli og telja fólk sem tengist Sólsetrinu að baki ódæðinu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur málið á sínu borði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×