Innlent

Þurfa að tæma innan­verðan Reyðar­fjörð af laxi vegna blóð­þorrans

Atli Ísleifsson skrifar
Sjókví í Reyðarfirði. Alls þarf að tæma níu sjókvíar vegna ISA-veirunnar sem nú hefur greinst í laxi á staðnum.
Sjókví í Reyðarfirði. Alls þarf að tæma níu sjókvíar vegna ISA-veirunnar sem nú hefur greinst í laxi á staðnum. Vísir/Arnar

Laxar Fiskeldi í samvinnu við Matvælastofnun hafa virkjað aðgerðaráætlun með tilliti til slátrunar og tæmingu allra kvía í innanverðum Reyðarfirði eftir að blóðþorri (ISA-veira) greindist í einum eldislaxi í kví félagsins.

Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar. Þar segir að þar með muni allur innanverður Reyðarfjörður tæmast fyrir laxi og fara í eldishvíld. Með þessari aðgerð skuli gert hið ýtrasta til að uppræta og hreinsa svæðið fyrir veirusmiti.

Samkvæmt upplýsingum frá Löxum þarf að tæma níu kvíar vegna málsins og verður ráðist í það strax eftir helgi.

Í tilkynningunni frá Matvælastofnun segir að í kjölfar þess að Laxar Fiskeldi hafi tæmt kvíabólið við Gripalda vegna blóðþorrans (ISA) sem þar greindist í lok nóvember síðastliðinn hafi sú staðsetning farið í lögbundna hvíld. Jafnframt hafi aðrar staðsetningar verið settar undir stranga skimunaráætlun.

„Sýna-seríur hafa verið teknar í hverjum mánuði allt frá því í desember og hafa verið tekin á þriðja þúsund sýni á svæðinu til sértækrar qPCR-greiningar. Allt fram til í apríl voru niðurstöður góðar og hvergi útslag með tilliti til hinnar meinvirku ISA-veiru. Við síðustu sýnatöku sýndi eitt stakt sýni af 288 sýnum á Sigmundarhúsum grunsamlega svörun, en sú staðsetning liggur næst Gripalda og er undir sama rekstrarleyfi. Allt hefur verið með eðlilegum hætti á svæðinu og laxinn frískur og dafnað eðlilega. Þetta eru svokölluð haustseiði sem sett voru út síðastliðið haust, alls um milljón seiði að meðalþyngd um 475 gr.

Tilraunastöðin á Keldum staðfesti fyrstu grunsemd og voru sýni einnig send til rannsóknastofu í Leipzig til nánari raðgreiningar. Endanleg svör bárust í vikunni og niðurstaðan staðfestir að um er að ræða hið meinvirka afbrigði veirunnar (ISA HPR-deleted),“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Grunur um blóðþorra í fyrsta skipti á Íslandi

Rökstuddur grunur er um blóðþorra, svonefnda ISA-veiru, í laxi í sjókví Laxa fiskeldis í Reyðarfirði. Veiran uppgötvaðist við krufningu og sýnatöku í kjölfar vaxandi óútskýrðra affalla í sjókví númer sjö hjá Löxum. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir fyrirtækið komið með þykkan skráp fyrir áföllum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×