Hún er einn af ræðumönnum sem tekur til máls á mótmælum sem boðuð eru á Austurvelli á morgun klukkan 13.45.
„Þetta ástand núna, það hreyfir við mér. Pabbi minn, heitinn, tók þátt í búsáhaldabyltingunni. Hann mætti alltaf til að sýna samstöðu og ég gerði það ekki en ég ætla að gera það núna,“ segir Theodóra sem segir margt við atburðaráð síðasta útboðs á hlut ríkisins í Íslandsbanka minna á bankahrunið.
„Ég hef alveg átt nokkra daga hérna heima hjá mér þar sem ég hef verið að velta þessu ástandi fyrir mér. Það er ýmislegt sem rifjast upp. Mér finnst eins og sagan sé að endurtaka sig. Jafnvel þó við höfum fengið heilu hvítbækurnar um að kerfið hafi verið styrkt og að regluverkið sé orðið sterkara þá erum við enn þá stödd þar að það er hægt að blekkja. Við erum bara stödd þar. Þetta er bara mannanna verk og mér finnst þetta vera vont ástand og ég vil stíga fram og taka þátt í mótmælunum.“
Finnst þér íslenskur almenningur hafa verið blekktur?
„Já, ég held að íslenskur almenningur hafi verið blekktur, ég held að þingið hafi verði blekkt, nefndirnar hafa verið blekktar og þetta er bara sambærilegt og kom fram í þessari skýrslu 2017, þar sem var sýnt fram á blekkingar við einkavæðingu sem leiddi af sér bankahrunið 2008 og mér finnst þetta bara grafalvarlegt. Mér finnst það líka alvarlegt að stjórnvöld láti ekki ná í sig, það er lítið um svör og þeim finnst þetta einhvern veginn bara léttvægt og það finnst mér alvarlegt. Ég hef ekkert umburðarlyndi fyrir blekkingum.
Kröfur mótmælenda eru að bankasölunni verði rift og að fjármálaráðherra segi af sér.
„Ég held að við ættum að sýna samstöðu og mæta. Það er mitt mat. Miðað við þær fréttir sem eru að berast um þessa bankasölu; þetta óréttlæti og þessi mismunun þá er þetta eitthvað sem við getum ekki látið bjóða okkur aftur. Það er alveg á hreinu.“