Lífið

„Þrí­eykið“ kiknaði undan á­lagi rétt fyrir meinta af­hjúpun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Staðgenglar styttunnar af þríeykinu voru ekki sérlega stöðugir.
Staðgenglar styttunnar af þríeykinu voru ekki sérlega stöðugir. SKjáskot

Auglýst afhjúpun á styttu af „þríeykinu“ svokallaða í dag reyndist aprílgabb og heppnaðist með ágætum. En undirbúningur á vettvangi gekk ekki þrautalaust fyrir sig, eins og myndband hér neðar í fréttinni sýnir.

Það eina sem blasti við áhorfendum beins streymis af hinni meintu afhjúpun á Vísi morgun var torkennilegur hlutur fyrir utan Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð, sveipaður svartri ábreiðu. Undir ábreiðunni reyndist alls ekki stytta af Ölmu Möller landlækni, Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni og Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni - heldur var þar að finna þrjár gínur. 

Þríeykið sundrað á grasbalanum við Björgunarmiðstöðina.Vísir/Stína

Og gínurnar létu illa að stjórn. Umsjónarmenn aprílgabbs fréttastofu áttu fullt í fangi með að stilla þeim upp á hnúðóttum grasblettinum við Björgunarmiðstöðina í morgun. Þung ábreiðan gerði gínurnar svo enn valtari en ella. Og rétt fyrir útsendingu gerðist það; þríeykið riðaði til falls og lenti með skelli í jörðinni, umsjónarmönnum til mikillar skelfingar. 

Hér fyrir neðan má sjá fall þríeykisins og skjót viðbrögð umsjónarmanna, sem reistu þremenningana við hið snarasta.

Hér má svo sjá útsendingu Vísis frá því í morgun. 


Tengdar fréttir

1. apríl 2022: Þrí­eykið gert ó­dauð­legt, nýr Í­þrótta­álfur tekur við og Sumar­búð Ís­lendinga rís

Fyrsti apríl, dagurinn sem fólk ýmist elskar eða elskar að hata, er nú genginn í garð enn einu sinni og strax á miðnætti hófust fyrirtæki, fréttamiðlar, fyrirtæki og einstaklingar handa við að reyna að gabba Íslendinga. Fréttastofa hefur tekið saman nokkur helstu göbb dagsins en sitt sýnist hverjum um hversu frumleg eða trúverðug þau eru í ár. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.