Menning

Kveður bókaútgáfuna eftir 36 ár: „Maður þarf að vera með sálina í þessu“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Matgæðingurinn og rithöfundurinn Nanna Rögnvaldardóttir hefur sett sitt mark á bókaútgáfu síðustu áratuga og gert garðinn frægan með sínum eigin. 
Matgæðingurinn og rithöfundurinn Nanna Rögnvaldardóttir hefur sett sitt mark á bókaútgáfu síðustu áratuga og gert garðinn frægan með sínum eigin.  Vísir/Fanndís

Nanna Rögnvaldardóttir lét af störfum sem ritstjóri Forlagsins síðastliðinn fimmtudag eftir 36 ár í bókaútgáfu en hún hefur komið víða við á sínum ferli, ritstýrt hundruð bóka og skrifað á þriðja tug sjálf. Hún hefur þó ekki endanlega sagt skilið við bækurnar, þó hún útiloki að hún muni skrifa aðra matreiðslubók. 

Óhætt er að segja að hún hafi áorkað ýmsu á sínum ferli en hún kveður bókaútgáfuna á sama stað og hún byrjaði, á Bræðraborgarstíg 7. Að sögn Nönnu var það þó ekki alltaf planið að fara þessa leið.

„Það var árið 1986 sem ég var að leita mér að vinnu og sótti um vinnu hjá bókaútgáfunni Iðunni við að svara í síma og skrifa út reikninga. Ég var ráðin í það og svo áður en langt um leið þá uppgötvuðu þau að það var hægt að nota símastelpuna í eitthvað annað líka,“ minnist Nanna og hlær.

Þetta hefði verið draumastarfið ef mér hefði dottið það í hug.

Tveimur árum síðar varð Nanna ritstjóri og hefur ekki litið um öxl síðan. Aðspurð um hvort það hafi komið á óvart segir hún svo vera að ákveðnu leiti, enda ekki starfið sem hún sótti um til að byrja með, en hún kvartar ekki.

Nanna hefur ritstýrt hundruð bóka af ýmsu tagi.Vísir/Fanndís

„Þetta hefði verið draumastarfið ef mér hefði dottið það í hug. Ég vildi alltaf vinna með bókum og var að velta fyrir mér að fara að vinna á bókasafni eða eitthvað,“ segir Nanna en hún segir það oft hafa verið mjög skemmtilegt í vinnunni, og stundum ekki jafn skemmtilegt.

„Það er misgaman að vinna með bækur en í heildina þá er það bara mjög ánægjulegt. Stundum hefur verið ofboðslega mikið að gera, mikið vinnuálag. Stundum hefur þetta verið svona heldur auðveldara en ég hef svo sem aldrei þurft að kvarta yfir verkefnaskorti, það er óhætt að segja,“ segir Nanna.

Kannski skrifa ég eitthvað. Svo ætla ég að ferðast og leika við barnabörnin. 

Nanna segist hafa ákveðið það fyrir nokkrum árum að hún myndi hætta þegar hún yrði 65 ára, áfangi sem hún náði á fimmtudeginum fyrir viku, og var síðasti vinnudagurinn hennar vikur síðar, þann 31. mars. Gærdeginum eyddi hún síðan í hvíld en ýmis verkefni bíða hennar strax eftir helgi.

„Sum sem ég er búin að lofa og önnur sem ég er bara að gera fyrir sjálfan mig og veit ekkert hvað verður um,“ segir Nanna. „En svo ætla ég bara að grúska, ég er mikill grúskari, í gömlum heimildum um bæði mat og annað. Kannski skrifa ég eitthvað. Svo ætla ég að ferðast og leika við barnabörnin og svona.“

Eytt 34 árum í þremur húsum 

Á sínum ferli hefur Nanna ritstýrt mörg hundruð bóka og skrifað á þriðja tug sjálf, mest megnis matreiðslubókum. Hún hefur nokkrum sinnum fært sig um set og var til að mynda ritstjóri Gestgjafans í nokkur ár. Þó margir vilja meina að hún hafi komið víða við hefur hún þó ekki gert það í bókstaflegri merkingu.

„Ég er búin að vinna í 34 ár hérna í þremur húsum, tveimur hérna á Bræðraborgarstíg og einu á Seljavegi, flutt nokkrum sinnum a milli þeirra. Þannig ég hef svo sem ekki farið langt en ég hef komið ansi víða við samt sem áður,“ segir Nanna létt í bragði.

Nanna Rögnvaldardóttir, ritstjóri og rithöfundur.Vísir/Fanndís

Aðspurð um hvort eitthvað standi upp úr á ferlinum, hvort einhver bók sé eftirminnilegri en önnur, segist Nanna ekki geta sagt það. Henni hafi þó vissulega fundist það mjög ánægjulegt að vinna við sínar eigin bækur.

„Það hefur verið mjög gott að vinna hjá útgefandanum, sitja báðum megin við borðið má kannski segja,“ segir Nanna og hlær. „En ég hef haft mjög frjálsar hendur yfirleitt við það og svona fengið að gera það sem ég vil og það hefur verið fínt.“

Ég kveð bókaútgáfuna mjög sátt. Þetta er búinn að vera yndislegur tími.

Þá er lítið sem hún sér eftir, þó það sé alltaf eitthvað sem maður vill breyta eftir á. „Ég hefði kannski stundum átt að vera svolítið ákveðnari sjálf og ekki bara gera alltaf það sem mér var sagt, sem ég er svolítið gjörn fyrir enn þá. En það er ekkert sem ég sé eftir samt, það er ekki þannig,“ segir Nanna.

„Ég hef átt mjög marga frábæra vinnufélaga sem að ég mun sakna en ég kveð bókaútgáfuna mjög sátt. Þetta er búinn að vera yndislegur tími.“

Segir alla vega skilið við matreiðslubækurnar

Þó hún kveðji nú bókaútgáfuna í bili hefur hún alls ekki sagt skilið við þennan hluta lífs síns fyrir fullt og allt. Hún sendi sína síðustu bók í prentun í gær en um er að ræða litla matreiðslubók fyrir ferðamenn um íslenskan jólamat og jólasiði.

Aðspurð um hvort hún freistist mögulega til að skrifa aðra matreiðslubók telur Nanna svo ekki vera.

„Ég verð ábyggilega að vinna ýmislegt í aukaverkum í sambandi við bækur af ýmsu tagi en ég ætla ekki að skrifa fleiri matreiðslubækur held ég, það er komið alveg nóg af þeim. Það geta einhverjir aðrir tekið við því,“ segir Nanna.

Nanna er mikill matgæðingur og eru langflestar bækur hennar um mat. 

Hún segir mikilvægt að fólk sem vill fara út í bókaútgáfu viti hvað felst í því. „Það er í rauninni býsna auðvelt að fara út í bókaútgáfu en það er líka mjög erfitt að halda dampi,“ segir Nanna.

„Maður kannski gefur út bók sjálfur og hún gengur ágætlega en það gleymast alls konar hlutir, eins og hver á að sjá um dreifinguna, hvernig er með auglýsingakostnaðinn, hvar á lagerinn að vera. Þetta eru allt saman liðir sem að fólk er kannski ekki mikið að velta fyrir sér,“ segir hún enn fremur.

„Maður þarf svolítið að helga sér þessu, maður þarf að vera með sálina í þessu. Þetta er ekki bara eitthvað sem að einhver gerir  í aukavinnu án þess að hugsa sig um.“

Ekkert sem jafnast á við það að fá bók í hendurnar

Þá er óhætt er að segja að bókaútgáfa hafi tekið breytingum frá því að Nanna hóf störf og má gera ráð fyrir að hún taki frekari breytingum á næstunni, meðal annars með tilkomu netsins. Nanna minnist þess að þegar hún var að byrja hafi handrit verið send í setningu upp í prentsmiðju, en það hafi hún ekki þurft að gera lengi. Þá hafa hljóðbækur breytt leiknum.

Að fá bók í hendurnar, hvort sem það er manns eigin eða einhver önnur bók, það er alltaf jafn gaman.

„Bækur eru að fara meira yfir í það, það er að segja jöfnum höndum. Það er nú ekki mikið um að það sé gefið beint út í hljóðbók en þetta er allt að breytast. En við höfum bara lagað okkur að því. Ég þarf ekkert að hugsa um það lengur, kannski eftir nokkur ár verður þetta orðið eitthvað allt öðruvísi og ég veit ekki neitt,“ segir hún og hlær.

Aðdráttarafl bókanna er þó enn gífurlegt og jafnast ekkert á við það að taka upp glænýja bók.

„Það er alltaf svo gaman að taka bækur sem eru nýkomnar úr prentsmiðju, sjá þær í fyrsta skiptið. Jafnvel bækur sem maður gjör þekkir og er búinn að fletta fram og aftur og skoða í prófi og alls konar,“ segir Nanna. 

„En að fá bók í hendurnar, hvort sem það er manns eigin eða einhver önnur bók, það er alltaf jafn gaman.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.