Innlent

Landsmenn ættu að finna til sólgleraugu fyrir þriðjudaginn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Svona lítur veðurspáin út fyrir þriðjudaginn.
Svona lítur veðurspáin út fyrir þriðjudaginn. Veðurstofa Íslands

Sólin er á leiðinni í heimsókn til Íslands. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur hjá Bliku varar við komu hinnar gulu í færslu á Facebook-síðu sinni. Í gríni segir hann um gula viðvörun að ræða.

Síðustu dagarnir í mars eru fram undan og eftir leysingar síðustu daga. Varla er snjó að sjá á höfuðborgarsvæðinu og svipaða sögu er að segja á Akureyri þar sem enn má þó sjá gráar snjóleifar víða.

Það stefnir í að landsmenn allir sjái til sólar á þriðjudaginn.

„Hætt er við ofbirtu og finnið til sólgleraugun í tíma. Viðkvæmir gætu þurft sólvörn,“ segir Einar Sveinbjörnsson. Hann segir að gula viðvörunin gæti breyst í appelsínugula eða jafnvel rauða við sólarlag.

„Horfið ekki af einskærri forvitni beint í sólina og fylgist vel með veðurspám.“

Þótt fólk ætti mögulega að hafa sólgleraugun við höndina er ekki tímabært að finna til stuttbuxurnar. Hitastig á landinu á þriðjudaginn verður rétt yfir frostmarki.

Annars eru 24 dagar í sumardaginn fyrsta sem ber upp 21. apríl í ár, vikunni eftir páska. Vinnuvikur hins almenna launþega eru því aðeins þrír dagar bæði vikuna fyrir og eftir páskahelgina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×