Lífið

Héldu sjálfar með Reykja­víkur­dætrum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Sigga, Beta og Elín unnu Söngvakeppni sjónvarpsins með laginu Með hækkandi sól í gærkvöldi.
Sigga, Beta og Elín unnu Söngvakeppni sjónvarpsins með laginu Með hækkandi sól í gærkvöldi. Stöð 2

Eyþórsdætur unnu afgerandi sigur í söngvakeppni sjónvarpsins í gær. Það kom þeim sjálfum ekki síst á óvart en þær eins og flestir höfðu gert ráð fyrir sigri Reykjavíkurdætra.

Úr­slitin voru nokkuð ó­vænt í gær­kvöldi. Að minnsta kosti fyrir þá sem tóku mark á veð­bönkum sem höfðu spáð Reykja­víkur­dætrum sigri.

Og það voru úr­slitin einnig fyrir sigur­at­riðið.

„Við áttum ekki alveg von á þessu. Þetta var svoldið ó­vænt,“ segir Sigga.

„Við erum enn­þá bara í smá sjokki,“ tekur Beta undir.

Það sást enda á þeim systrum þegar þær stigu upp á svið í gær eftir að úr­slitin höfðu verið til­kynnt.

„Við erum búnar að fá svona myndir af okkur þar sem við erum bara alveg hissa í framan,“ segir Elín.

Elska Reykjavíkurdætur

Eins og nánast hvert einasta ár eru ekki allir Ís­lendingar sam­mála um úr­slit söngva­keppninnar.

Ýmsir net­verjar kvörtuðu undan því að ná ekki í gegn um sím­kerfið í kosningunni og héldu sumir því fram að þar hefði sér­stak­lega hallað á Reykja­víkur­dætur vegna bilunar í kerfinu.

Þetta þver­taka for­svars­menn keppninnar fyrir og segja að sigur Ey­þórs­dætra hafi verið af­gerandi.

„Við elskum Reykja­víkur­dætur,“ segja systurnar.

„Við spáðum þeim sigri líka, héldum með þeim og bara allt. Fannst þær al­gjör­lega geggjaðar. Það var heiður að fá að vera með þeim þarna.“

Ekki mestu Eurovision-aðdáendurnir

Þegar þær eru spurðar hvort þær séu miklir að­dá­endur keppninnar kemur hik á systurnar.

„Sko, já og nei... bæði. Við þekkjum ekki stóru keppnina...“

„Þetta er allt svoldið nýtt fyrir okkur, verum nú bara alveg heiðar­legar þar,“ viður­kennir Elín loks. „En það er svo inni­lega raun­veru­legt að þetta er búið að vera skemmti­legasta verk­efni sem við höfum tekið að okkur.“

Þær eru spenntar að komast út að keppa í Euro­vision fyrir hönd Ís­lands.

„Þetta er bara ó­trú­lega gaman og skemmti­legt og takk fyrir að treysta okkur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×