Lífið

Á­skorun að þurfa að horfa á maka sinn njóta ásta með annarri mann­eskju

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Þau Arnar Dan og Sigga Soffía eru gestir í nýjasta þætti af hlaðvarpinu Betri helmingurinn með Ása.
Þau Arnar Dan og Sigga Soffía eru gestir í nýjasta þætti af hlaðvarpinu Betri helmingurinn með Ása. Betri helmingurinn

Listafólkið Arnar Dan og Sigga Soffía urðu ástfangin á göngum Listaháskólans enda segir Arnar fátt meira heillandi en að sjá manneskju í essinu sínu. Sigga viðurkennir þó að það hafi reynst henni erfitt að þurfa horfa á Arnar nakinn í ástarsenu með annarri konu á nemendasýningu skólans.

Arnar Dan Kristjánsson útskrifaðist frá Leiklistardeild LHÍ árið 2013 og hefur leikið í hinum ýmsu verkum á fjölum leikhúsanna, í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Ásamt því að vera leikari stofnaði hann veitingastaðinn Reykjavík Chips á sínum tíma ásamt æskuvinum sínum. Nú nýlega gaf hann svo út spilið „Hvað í pabbanum ertu að gera“ sem fór í sölu á síðasta ári.

Hans betri helmingur, Sigríður Soffía Hafliðadóttir, eða Sigga Soffía eins og hún er alltaf kölluð, er söngkona og útskrifaðist með BA gráðu í skapandi tónlistarmiðlun frá LHÍ árið 2015. Í dag er hún kórstjóri og stýrir meðal annars kór söngskólans Domus Vox.

Þau Arnar og Sigga voru gestir í 47. þætti af hlaðvarpinu Betri helmingurinn með Ása sem hóf göngu sína síðasta vor. Umsjónarmaður þáttanna er Ásgrímur Geir Logason. Hann fær til sín þjóðþekkta einstaklinga ásamt þeirra betri helming og ræðir um ástarsambandið, lífið og tilveruna.

Bað um eitt aukalag til að geta talað við Siggu

Í þættinum segja þau frá því hvernig þau kynntust í Hrekkjavökupartýi Listaháskólans. Arnar var þá búinn að taka eftir Siggu á göngum skólans. Sigga hafði einnig tekið eftir Arnari en leyfði sér þó ekki að hugsa það lengra þar sem hann var tiltölulega nýkominn úr löngu sambandi.

„Ég sá hana þarna í partýinu og hugsaði bara að þetta væri fallegasta og áhugaverðasta pía sem ég hefði séð á ævinni,“ segir Arnar.

Þegar Arnar manaði sig loksins upp í að fara að tala við hana var partýið að líða undir lok. Hann ákvað því að fara og biðja plötusnúðinn um eitt lag í viðbót og gekk svo upp að Siggu og reyndi að spjalla við hana.

„En ég var þarna blásandi í einhvern lúður og var ekkert að hlusta á hann. Ég var bara eitthvað að fíflast,“ segir Sigga.

Það fór þó svo að þau dönsuðu saman inn í nóttina og við tók eitt ár þar sem þau voru sundur og saman.

Árekstrar fyrsta árið

„Við vorum bara svona að dinglast. Við vorum að hnoðast saman, því í grunninn erum við rosalega ólík. Ég vil samt meina að það sé styrkurinn í okkar sambandi,“ segir Arnar.

Arnar er orkumikill og hvatvís og líkir Sigga honum við rakettu. Á móti er Sigga jarðbundin og ígrundar hlutina og þannig vega þau hvort annað upp.

„Ég er þannig manneskja að ég elska að láta stuða mig og að það sé lagt spurningarmerki við mínar pælingar því þær eru margar og oftast skrítnar. Sigga jarðtengir mig og spyr mig hvað ég sé að hugsa. Á þessu fyrsta ári okkar þá voru þetta árekstrar því mér fannst hún ekki hugsa rétt og henni fannst ég ekki hugsa rétt. En þetta mótaðist og við föttuðum hvað við gætum lært ótrúlega margt af hvor öðru.“

Þó svo að það hafi tekið sinn tíma að finna jafnvægið þá eru þau gift í dag og hafa stofnað sína eigin fjölskyldu. Þau eiga tvo drengi og eiga von á lítilli stúlku í næstu vikum.

Arnar og Sigga eru gift og eiga saman tvo drengi, en eiga von á stúlku á næstu vikum.

Áskorun að horfa á maka sinn í ástarsenu

Í þættinum segir Sigga frá því að það hafi verið ákveðin áskorun að venjast því að Arnar þyrfti að leika í ástarsenum á móti öðrum konum.

„Það var sýning þegar ég var á þriðja ári í Listaháskólanum, þá var ég nakinn í fimm mínútur á sviðinu í intensive ástarsenu með Thelmu Marín bekkjarsystur minni. Hún var líka nakin og við vorum bara eiginlega að ríða á sviðinu. Í algjörri blindni sagði ég Siggu ekkert frá því að þetta væri að fara gerast því mér fannst þetta bara eðlilegt.“

Sigga mætti stolt á frumsýninguna og sat á fremsta bekk en brá heldur betur í brún þegar hann byrjaði að fækka fötum á sviðinu.

„Ég varð náttúrlega rosalega vandræðaleg og byrja að sökkva í sætið. Svo kemur Thelma og fer líka að klæða sig úr fötunum og ég hugsa bara „nei, nei, nei!“. Þetta var mjög fyndin sena og fólk var að hlægja, en mér var ekki skemmt,“ segir Sigga.

Arnar segist aldrei vera ástfangnari af Siggu heldur en þegar hann horfir á hana koma fram sem kórstjóra.

„Þegar ég sé hana í elementinu sínu ... Það er svo geggjað og hvað þá ef þú ert í Hallgrímskirkju. Svo sérðu þessa gyðju á miðju gólfinu, snýr baki í áhorfendur og er með tvö hundruð og fimmtíu konur fyrir framan sig. Maður sér bara mittislínuna og fegurðin er klikkuð og öll þessi útgeislun!“

Ætlaði að biðja hennar fimmtíu sinnum

Arnar og Sigga höfðu trúlofað sig óformlega þegar Sigga benti Arnari á að hún myndi nú helst vilja að hann færi niður á hné og gæfi henni hring. Arnar var hins vegar með sín eigin áform um að biðja hennar fimmtíu sinnum.

„Mér fannst svo fyndið að sjá hana vandræðalega. Mig langaði til þess að biðja hennar í Kringlunni og öskra það. Mig langaði að biðja hennar í sundi í kafi. Mig langaði til að biðja hennar á mismunandi stöðum því viðbrögðin hennar eru alltaf svona „Æ Arnar ekki gera þetta“. En þegar þú ert svona ástfanginn þá ertu bara alltaf að spyrja „Viltu giftast mér“,“ segir Arnar en Sigga var þó alltaf að bíða eftir hringnum.

Það var svo þegar þau voru stödd á Ítalíu árið 2017 og Sigga var ólétt af þeirra öðru barni sem Arnar lét til skarar skríða.

„Hann býður mér í göngutúr og við erum að labba þarna á bryggjunni og Arnar bendir til hægri og segir „hvaða hús er þetta?“ og svo þegar ég aftur á Arnar þá er hann kominn á skeljarnar með hring og box og ég alveg missi það „nei, nei, nei, nei, Arnar stattu upp!“,“ en Siggu fannst þetta of mikil athygli og fattaði á þessari stundu að draumurinn um rómantíska bónorðið var ekki fyrir hana.

Fjórum árum síðar ákváðu þau svo að gifta sig hjá sýslumanni og ætla þau sér að halda stóra veislu síðar. Arnar sá þó til þess að dagurinn yrði eftirminniegur og fékk vini sína til þess að aka með þau um Hlíðarsmárann á svokölluðum „mannvagni“ en það má heyra nánar um hann í brotinu hér að neðan.

Klippa: Betri helmingurinn með Ása - Arnar Dan og Sigga Soffía

Fann Arnar uppi í rúmi hjá bróður sínum

Í þættinum segja þau eftirminnilega sögu af óförum Arnars þegar þau Sigga voru nýbyrjuð saman. Á þessum tíma átti hann það til að sofna í sturtu eftir að hann var búinn að fá sér í glas.

„Arnar kemur heim til mín þar sem ég bjó hjá foreldrum mínum. Hann var búinn að fá sér smá og var hress og kátur og segist þurfa að fara í sturtu. Sturtan var við hliðina á herberginu hjá mömmu og pabba.“

Sigga gat þó ekki sofnað því hún vissi að Arnar ætti það til að sofna í sturtu. Hún fór því reglulega til þess að athuga með hann, en á endanum gafst hún upp og sofnaði. Henni brá þó í brún þegar hún vaknaði klukkan níu morguninn eftir og sá að Arnar var ekki ennþá kominn upp í rúm.

„Þá fer ég inn á bað en það var enginn Arnar þar. Þannig ég kíki inn í herbergi foreldra minna en sem betur fer var enginn Arnar þar. Ég ákvað að kíkja upp í herbergi litla bróður míns og þar liggur Arnar hliðina á bróður mínum, vonandi með handklæði utan um sig,“ en bróðir Siggu svaf þó í gegnum þetta og varð ekkert var við það að Arnar hefði skriðið upp í til hans.

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við þau Arnar Dan og Siggu Soffíu í heild sinni.


Tengdar fréttir

Átti bókaðan tíma hjá Gumma daginn eftir að hann bauð henni á stefnu­mót

Lína Birgitta og Gummi Kíró höfðu verið góðir félagar um nokkurt skeið áður en þau fóru að líta hvort annað rómantískum augum. Gummi ákvað eitt kvöldið að láta til skarar skríða og bjóða Línu á stefnumót. Það sem hann vissi ekki var að hún átti bókaðan tíma hjá honum á Kírópraktorstöðinni morguninn eftir og varð sá tími vægast sagt vandræðalegur fyrir þau bæði.

Ætti ekki að vera feimnis­mál að hjón leiti sér að­stoðar

Þau Siggi og Lísa hafa verið saman í 45 ár og komist yfir hinar ýmsu hindranir í sinni sambandstíð. Þau segja að þar skipti gagnkvæmt traust og samskipti miklu máli. Þá segjast þau einnig hafa leitað sér aðstoðar fyrir mörgum árum og það hafi skilað miklum árangri.

„Hún vildi ekkert með mig hafa fyrst um sinn“

Tobba var aðeins fjórtán ára gömul þegar hún og Hreimur byrjuðu fyrst saman. Þrátt fyrir að hafa farið sundur og saman eins og gengur og gerist á unglingsárunum, eru þau gift í dag og lifa fjölskyldulífi í Norðlingaholtinu ásamt þremur börnum og einum Covid-hundi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.