Innlent

Fékk lífið sjálft að gjöf eftir harðan á­rekstur á af­mælis­daginn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndin sýnir glögglega aðstæður á vettvangi, skafrenningur og ís.
Myndin sýnir glögglega aðstæður á vettvangi, skafrenningur og ís. Mynd/Aðsend

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst segist hafa fengið lífið sjálft að gjöf síðastliðinn sunnudag, afmælisdag hennar, eftir að hafa gengið nær ósködduð frá alvarlegu umferðarslysi í grennd við Hofsós.

Margrét var á leið frá Siglufirði á Bifröst á sunnudaginn þegar óhappið varð. Hún var komin skammt á leið þegar hún mætti jeppa sem var á leið í gagnstæða átt.

Aðstæður virðast hafa orðið til þess að ökumaður hans missti stjórn á bílnum, með þeim afleiðingum að hann skall framan á bíl Margrétar, sem var ein á ferð.

„Það var hálka, það var ís og skafrenningur þar að auki. Þetta var ísilagður kafli. Þetta var ótrúleg óheppni, segir Margrét um aðstæðurnar á slysstað.

„Þetta er kraftaverk“

Bíll Margrétar hentist austur fyrir veginn, jeppinn fór vestur fyrir veginn. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er bíll Margrétar gjörónýtur og mikil mildi þykir að hún hafi sloppið án alvarlegra meiðsla úr slysinu.

Höggið var töluvert. Á myndinni má sjá að bílarnir tveir fóru út af sitt hvoru megin við veginn.Mynd/Aðsend

„Þú trúir því ekki að manneskjan sem var inn í þessum bíl hafi komið óbrotin út. Þetta er óskiljanlegt. Þetta er kraftaverk,“ segir Margrét.

Full þakklætis í garð vegfarenda sem komu fyrstir á vettvang

Annar fótur Margrétar var fastur eftir áreksturinn og því komst hún ekki út úr bílnum til að kanna með ástand þeirra sem voru í jeppanum. Örskömmu eftir slysið komu aðrir vegfarendur á vettvang.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, í Héðinsfirði.Aðsend

„Svo koma ótrúlega yndislega hjón frá Sauðárkróki. Hann sinnir þeim og hún sinnir mér,“ segir Margrét. Umrædd hjón heita Aðalbjörg Valbergsdóttir og Örn Þorkelsson. Margrét kann þeim bestu þakkir fyrir hvernig þau brugðist við á vettvangi.

„Það er aðdáunarvert hvað þau hlúðu vel að okkur. Það var alveg magnað. Óeigingjarnir þjóðfélagsþegnar, þetta eru hvunndagshetjurnar.“

Auk þeirra kom þriðji maðurinn á vettvang sem gat aðstoðaði eins og hann gat.

„Þau voru þessar ótrúlega hetjur. Þau hlúðu að okkur á slysstað,“ segir Margrét.

Margrét og farþegar jeppans voru flutt til Sauðárkróks og þaðan með sjúkraflugi til Akureyrar á Sjúkrahúsið á Akureyri. Sem fyrr segir þykir með ólíkindum að Margrét hafi sloppið frá slysinu án alvarlegra meiðsla.

„Ég er bara bólgin, marin og meyr,“ segir Margrét sem ætlar að jafna sig á slysinu á Siglufirði hjá eiginmanni sínum. Margrét segist vera nokkuð viss um það að bíllinn hennar, Tesla-rafbíll, hafi átt sinn þátt í að hún slapp nær ósködduð úr slysinu.

Mildi þykir að Margrét hafi sloppið tiltölulega ómeidd frá slysinu, en svo virðist sem að höggið hafi lagst af mestum þunga á hægri hlið bílsins, farþegamegin.Mynd/Aðsend

„Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég er forréttindakona og er á Teslu sem er öruggasta bifreið í heiminum í dag. Ég leyfi mér að fullyrða það að Teslan hafi bjargað lífinu mínu,“ segir hún og tekur fram að hún sé þó ekki á samningi við markaðsdeild Teslu. Hrósa má happi yfir því að Margrét hafi verið ein á ferð því að aðalhöggið í árekstrinum virðist hafa komið farþegamegin á bílinn.

Áminning um að lifa lífinu vel

Tilfinningin sem bærist með Margréti eftir slysið er aðallega þakklæti. Þakklæti í garð hjónanna frá Sauðárkróki sem komu að slysinu, mannsins sem kom einnig að slysinu og allra þeirra sem sinntu þeim á slysstað. Þakklæti fyrir lífið sjálft.

„Sá sem hefur ekki heilsu á einungis einn draum. Sá sem veit að hann var heppinn að lifa af finnur til þakklætis í magni sem var áður óþekkt á tilfinningaskalanum. Það er ekki bara að maður geri sér grein fyrir því hversu hverfult lífið er heldur bara hversu ótrúlega heppin ég var. Yfir mér var haldið verndarhendi“ segir Margrét.

Sem fyrr segir átti hún afmæli á sunnudaginn og í Facebook-status þar sem hún lét vini og vandamenn vita hvað hafði gerst segist hún hafa fengið heimsins stærstu afmælisgjöf þennan örlagaríka afmælisdag, lífið sjálft.

„Þetta segja Spánverjar að sé að endurfæðast, allavega klárlega annað tækifæri. Þetta er áminning um að lífa lifinu vel, láta muna um sig og sinna því sem skiptir máli,“ segir Margrét.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×