Lífið

Skrautleg meðganga

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kristjana er ein vinsælasta sjónvarpskona landsins. 
Kristjana er ein vinsælasta sjónvarpskona landsins. 

Kristjana Arnarsdóttir er ein vinsælasta sjónvarpskona landsins. Hún starfar sem íþróttafréttakona og spyrill í Gettu betur. Kristjana er gestur vikunnar í Einkalífinu en viðtalið var tekið 4. febrúar, rétt eftir Evrópumótið í handbolta.

Seinna um kvöldið þennan dag lenti Kristjana í erfiðu atviki í beinni útsendingu í Gettu betur þegar hún féll í yfirlið en hún hefur náð að safna kröftum síðustu vikur og undirbýr sig fyrir stærsta verkefnið hingað til, að verða móðir.

Í þættinum ræðir Kristjana um samband sitt við atvinnukylfinginn Harald Franklín Magnús og eftirvæntinguna fyrir fyrsta barni þeirra saman.

„Við eigum eðlilega mjög vel saman enda höfum við bæði gríðarlegan áhuga á íþróttum. Það er mikill kostur fyrir pör að geta verið með sameiginleg áhugamál. Sem þýðir að ég hef áhuga á því sem hann gerir og hann hefur áhuga á því sem ég geri,“ segir Kristjana um sambandið.

„Þetta er svolítið sjómannslíf, hann er mikið erlendis að spila og fer stundum út í Leifsstöð og kemur heim einhverjum mánuðum síðar. Hann er núna út í Suður-Afríku og tímabilið að byrja hjá honum og hann kemur í lok mars. Við erum orðin vön þessu.“

Klippa: Einkalífið - Kristjana Arnarsdóttir

Kristjana segir að meðgangan hafi nú verið nokkuð skrautleg.

„Ég lenti svolítið í ógleðinni og hún fór svolítið illa með mig fyrstu vikurnar. Þá var Haddi sem betur fer heima og maður veit ekkert hvernig kerfið bregst við og hjá mér þurfti ég akkút að fá gulrætur eða gúrkur. Þá var það bara, Haraldur getur þú farið út í búð og keypt þrjár stórar gúrkur strax. En þetta er allt að koma núna og það er allt í góðu að hann sé úti núna. Hann gerir sér alveg grein fyrir því að það eru nokkur herðanudd og fótnudd sem hann skuldar þegar hann kemur heim,“ segir Kristjana.

Í þættinum hér að ofan ræðir Kristjana einnig um starfið sem íþróttafréttakona og hvernig það er að vera kona í þeim bransa, hvernig fjölmiðlabakterían er í blóðinu en faðir hennar er margreyndur fjölmiðlamaður, hlutverk hennar í Gettu betur og margt fleira.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×