Lífið

„Þetta var partur af hans lífsgleði“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ragnar Axelsson og Haraldur Diego í einum af þeirra ævintýrum saman í háloftunum.
Ragnar Axelsson og Haraldur Diego í einum af þeirra ævintýrum saman í háloftunum. RAX

„Loftmyndin er svolítið vanmetin í því sem hún gerir fyrir Ísland,“ segir Ragnar Axelsson ljósmyndari og flugmaður. Nýjasti þátturinn af RAX Augnablik var tileinkaður flugmanninum Haraldi Diego, sem lést í flugslysi á Þingvallavatni á flugvél sinni þann 3. febrúar síðast liðinn.

„Hann  hafði samband við mig sem ungur strákur, hann er aðeins yngri en ég. Hann hafði áhuga á ljósmyndun og alltaf þegar einhver hringir þá vil ég hjálpa til og miðla einhverju sem ég kann. Við urðum góðir vinir,“ segir RAX um fyrstu kynni sín af Haraldi, eða Hadda eins og hann kallar hann.

Sárt saknað úr flugheiminum

„Hann miðlaði af sinni reynslu til mín og við töluðum oft saman um hans drauma og það sem hann vildi gera í framtíðinni, það var mjög fallegt. Þetta var flinkur flugmaður og góður drengur. Hans verður sárt saknað úr flugheiminum.“

RAX fjallar í þættinum um áhrif ljósmynda af Íslandi sem birtast á erlendum samfélags- og fréttamiðlum. Haraldur hafði í mörg ár flogið með flesta þá sem vildu ná slíkum myndum af landinu okkar, enda var hann gríðarlega vinsæll á meðal erlendra ljósmyndara. 

„Það er ekki alveg sama hvernig þú myndar úr lofti og flugmenn verða að skilja hvað ljósmyndarinn hugsar þannig að þeir fljúgi rétt á þessi horn sem þarf að ná. Sumir fljúga bara fram hjá og það þýðir ekki að tala við þá. Haddi vissi hvernig átti að gera þetta og þeir elskuðu að fljúga með honum, bara honum,“ útskýrir RAX í þættinum. Hann segir að Haraldur hafi gert þetta fyrir ljósmyndara sem vinur þeirra.

„Hann vildi hjálpa til og hjálpa þeim. Þetta var partur af hans lífsgleði.“

Þáttinn má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. 


Tengdar fréttir

RAX Augnablik: „Ég vann við það að vera leiðinlegur“

Ljósmyndarinn Ragnar Axelsson hefur myndað náttúruhamfarir, skipsströnd, bráðnun jökla og erfiðar aðstæður um allan heim. En hann er líka mikill húmoristi og hefur tekið margar bráðsniðugar myndir síðustu ár. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.