Innlent

Fangaði undar­legt aksturs­lag „sjálf­skipaðrar löggu“ á mynd­band

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Líkt og sjá má er um helmingur sendiferðabifreiðarinnar á öfugum vegarhelmingi.
Líkt og sjá má er um helmingur sendiferðabifreiðarinnar á öfugum vegarhelmingi. Vísir/Kristófer

Útvarpsmaðurinn Kristófer Helgason varð vitni að heldur undarlegu aksturslagi bílstjóra sendiferðabifreiðar á Reykjanesbraut í dag. Hann greinir frá málinu á Facebook og birtir með myndband sem hann tók á myndavél í bílnum sínum.

„Stundum verður maður alveg gáttaður á hvernig sumir haga sér í umferðinni. Verstir eru þeir sem ætla að hafa vit fyrir öðrum. Ég sá einn slíkan í dag á Reykjanesbrautinni sem stjórnaði þar umferð af mikilli hörku. Tók sér stöðu á vinstri akrein við hlið flutningabíls frá Kjörís. Sjálfskipaða löggan á hvítum Opel Vivaro setti hazardljósin á og passaði að enginn kæmist fram úr,“ skrifar Kristófer.

Málið hafi hins vegar vandast fyrir „sjálfskipuðu lögguna“ þegar tvær akreinar urðu að einni. Viðkomandi hafi ekki dáið ráðalaus. Kristófer heldur áfram:

„Til að hafa stjórn á öllum þeim sem safnast höfðu fyrir aftan hann, ákvað hann að fara hálfur yfir á öfugan vegarhelming til að tryggja að enginn kæmist framhjá.“

Sjón er sögu ríkari en myndbandið má sjá í spilaranum hér að ofan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×