Innlent

Stefnir í að skerða þurfi valþjónustu enn frekar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri óttast að skerða þurfi valþjónustu enn frekar vegna manneklu.
Framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri óttast að skerða þurfi valþjónustu enn frekar vegna manneklu. Vísir/Tryggvi/Aðsend

Sigurður Einar Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga við Sjúkrahúsið á Akureyri segir að með þessu áframhaldi sé útlit fyrir að skerða þurfi valþjónustu enn frekar.

Nú liggja níu sjúklingar inni á sjúkrahúsinu með COVID-19 en af þeim eru þrír þeirra sem eru inniliggjandi beinlínis af völdum sjúkdómsins. Ástandið á sjúkrahúsinu er með eindæmum slæmt með tilliti til mönnunar en erfiðlega hefur reynst að manna grunnþjónustu.

„Staðan er mjög þröng núna. Sem dæmi má nefna þá eru 56 starfsmenn núna skráðir í fjarveru vegna COVID-19 sem er þessi tala sem hefur verið undanfarna daga. Þetta er orðið ansi þröngt og erfitt á deildunum að manna grunnþjónustuna. Við höfum þurft að kalla fólk inn á aukavaktir og erum að huga að því hvernig við getum haldið þessu áfram. Hugsanlega þarf að skerða eitthvað meira valþjónustu en undanfarið.“

Sigurður var spurður hvernig honum litist á frekar afléttingar sóttvarnaaðgerða í samfélaginu.

„Það er bara mjög erfitt að segja til um það. Þetta er vandasamt mat og spurning hvort við höfum í raun og veru mikla stjórn á faraldrinum úti í samfélaginu. Okkur sýnist smitin vera það mörg á degi hverjum að þær takmarkanir sem eru í gildi nái kannski ekkert að draga verulega úr. Aftur á móti þá er fólk að vinna með sóttvarnir á heilbrigðisstofnunum og það er það sem kemur þá kannski helst í veg fyrir að þetta dreifist hratt á meðal þeirra sem veikari eru fyrir. Hvort það verði hætt með þessa fimm daga einangrun og þá sérstaklega hjá einkennalausum; ég veit ekki hvort það breyti miklu. Smitsjúkdómasérfræðingar og faraldursfræðingar kunna betur að meta það og væntanlega verður sú ákvörðun tekin út frá þeirra þekkingu.“


Tengdar fréttir

Næstu tvær vikur verði mjög erfiðar: „Við höfum ekki fleiri til að leita til“

Hátt í tíu prósent starfsmanna Landspítala eru nú frá vinnu vegna Covid og annarra veikinda. Staðan er því mjög þung á spítalanum um þessar mundir og má gera ráð fyrir að hún verði það áfram næstu vikurnar. Framkvæmdastjóri mannauðs á Landspítala vonar að fjöldi starfsmanna með Covid sé á leiðinni niður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.