Innlent

Dæmdur til greiðslu skaða­bóta fyrir að brjóta rúðu lög­reglu­bíls

Atli Ísleifsson skrifar
Atvikið átti sér stað á bílaplani Fjarðakaupa í Hafnarfirði í mars á síðasta ári. Myndin er úr safni.
Atvikið átti sér stað á bílaplani Fjarðakaupa í Hafnarfirði í mars á síðasta ári. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt mann til greiðslu tæplega 100 þúsund króna í skaðabætur fyrir að hafa brotið rúðu í lögreglubíl í mars á síðasta ári. Manninum var annars ekki gerð sérstök refsing í málinu.

Í ákæru kemur fram að maðurinn hafi slegið í glerrúðu hægri afturhurðar lögreglubíls þar sem hann stóð kyrrstæður á bílaplani Fjarðarkaupa í Hafnarfirði með þeim afleiðingum að hún brotnaði. Maðurinn sat í aftursæti lögreglubílsins þegar hann braut rúðuna.

Maðurinn játaði skýlaus brotið og samþykkti sömuleiðis skaðabótakröfu.

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi verið dæmdur í eins árs skilorðsbundið fangelsi í mars 2021 meðal annars fyrir hylmingu, peningaþvætti, umferðar- og fíkniefnalagabrot og brot gegn lyfjalögum.

Brotið sem hann var dæmdur fyrir nú er samkvæmt dómara talið minniháttar og framið áður en hann hlaut fyrrgreindan dóm. Því sé um hegningarauka að ræða.

Manninum var einnig gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda, rétt rúmlega 200 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×