Þá verða orkumálin tekin ítarlega fyrir en Landsnet varar við því í nýrri greiningu í dag að raforkuskortur verði viðvarandi vandamál á Íslandi næstu árin ef ekki verði brugðist skjótt við. Við ræðum við forstjóra Landsnets og verðum í beinni útsendingu frá Alþingi, þar sem málið var rætt í dag.
Við tökum einnig stöðuna á spennunni sem nú ríkir milli Úkraínu og Rússlands en sérfræðingur telur ólíklegt að Rússar geri innrás í Úkraínu, líkt og þeir hafa hótað. Sök Vesturlanda í deilunni sé jafnframt mikil.
Þá hittum við eigendur hundsins Pílu sem bjargað var á ótrúlegan hátt í Bolungarvík eftir þriggja vikna leit og ræðum við forseta Íslands um mikla úlfúð íslensku þjóðarinnar í garð Dana, eftir grátlegt tap á Evrópumeistaramóti karla í handknattleik í Búdapest í gær.
Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 á slaginu hálf sjö.