Fótbolti

Mané fór meiddur af velli er Senegal lagði níu leikmenn Grænhöfðaeyja

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sadio Mané skoraði fyrra mark Senegal áður en hann þurfti að fara meiddur af velli.
Sadio Mané skoraði fyrra mark Senegal áður en hann þurfti að fara meiddur af velli. Ulrik Pedersen/NurPhoto via Getty Images

Sadio Mané skoraði fyrra mark leiksins er Senegal tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Afríkumótsins í fótbolta með 2-0 sigri gegn Grænhöfðaeyjum. Tveir leikmenn Grænhöfðaeyja sáu rautt og Mané þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla.

Leikmenn Grænhöfðaeyja komu sér í vandræði eftir aðeins tuttugu mínútna leik þegar Patrick Andrade fékk að líta beint rautt spjald. Leikmenn Senegal náðu ekki að nýta sér liðsmuninn fyrir hálfleik og því var staðan enn 0-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Ekki batnaði útlitið fyrir Grænhöfðaeyjar þegar markvörður liðsins, Vozinha, fékk einnig að líta beint rautt spjald, og liðið þurfti því að leika seinasta hálftíma leiksins tveimur mönnum færri.

Þennan liðsmun náðu Senegalar að nýta sér, því aðeins sex mínútum eftir seinna rauða spjaldið var Sadio Mané búinn að koma liðinu í 1-0 með glæsilegu marki.

Örfáum mínútum síðar þurfti Mané svo að yfirgefa völlinn, en hann hafði lent í samstuðu við markvörð Grænhöfðaeyja sem leiddi til þess að markvörðurinn fékk að líta rauða spjaldið.

Eins og við var að búast sóttu Senegalar stíft það sem eftir lifði leiks, og það skilaði sér loks í uppbótartíma þegar Ahmadou Bamba Dieng slapp einn í gegn og gulltryggði 2-0 sigur liðsins.

Senegal er nú komið í átta liða úrslit á kostnað Grænhöfðaeyja þar sem liðið mætir annað hvort Malí eða Miðbaugs-Gíneu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.