Sport

Unnusti leikmanns Þróttar í sumar á góða möguleika á að slá virt met í NFL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dani Rhodes fagnar til vinstri marki með Þrótti í sumar og T.J. Watt fagnar til hærri einni leikstjórnandafellu sinni.
Dani Rhodes fagnar til vinstri marki með Þrótti í sumar og T.J. Watt fagnar til hærri einni leikstjórnandafellu sinni. Samsett/Hulda Margrét og AP

T.J. Watt hefur átt frábært tímabil með Pittsburgh Steelers og eftir magnaða frammistöðu í sigri Steelers á Cleveland Browns á mánudagskvöldið er hann kominn í dauðafæri að eignast eitt virtasta metið í NFL-deildinni.

Það vita kannski ekki allir en T.J. Watt er unnusti Dani Rhodes, bandarísku knattspyrnukonunnar sem spilaði með Þrótti í Pepsi Max deild kvenna í fótbolta síðasta sumar.

Rhodes skoraði 4 mörk í 10 leikjum í deild og bikar en Þróttur náði þriðja sætinu í deildinni og komst alla leið í bikarúrslitaleikinn.

Áður en Dani Rhodes flaug til Íslands í sumar þá bað T.J. Watt hana að giftast sér og hún sagði já.

Metið sem Watt er kominn í skotfæri við eru metið yfir flestar leikstjórnendafellur á einu tímabili.

Watt náði fjórum fellum í sigrinum á Browns og er því kominn með 21,5 leikstjórnendafellur á tímabilinu.

Metið hefur verið í eigu Michael Strahan undanfarin tuttugu ár en hann náði 22,5 fellum á 2001 tímabilinu.

Það merkilega við árangur Watt er að hann er búinn að ná þessu í aðeins fjórtán leikjum. Hann missti nefnilega úr tvo leiki vegna meiðsla.

Lokaleikur Watt verður á móti Baltimore Ravens um helgina, liði sem hefur gefið færi á sér á tímabilinu. Tvær fellur standa á milli Watt og að eiga metið einn. Hann segist ekki endilega ætla að elta metið en miðað við stuðið á honum í síðasta leik þá er allt eins víst að það falli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×