Innlent

Nýja árið hefst með gulum viðvörunum

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Nýja árið byrjar á alvöru íslensku vetrarveðri.
Nýja árið byrjar á alvöru íslensku vetrarveðri. Skjáskot/Veðurstofan

Nýja árið hefst á krafti á laugardaginn en gular viðvaranir verða í gildi yfir daginn alls staðar nema á höfuðborgarsvæðinu. 

Veðurstofan hefur nú gefið út gular viðvaranir fyrir nýársdag en viðvaranir verða í gildi nánast alls staðar á landinu yfir daginn. 

Að því er kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofunni hafa tölvuspár fyrir nýársdag verið nokkuð flöktandi undanfarið en nú liggur fyrir spáin fyrir. Spáð er norðaustanstormi og norðanhríð og verður víða lítið eða ekkert ferðaveður.

Fyrstu viðvaranir taka gildi klukkan sjö um morguninn á Suðurlandi og frá klukkan 14 verða gular viðvaranir í gildi alls staðar á landinu, fyrir utan á höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi eystra, fram til miðnættis.

Á Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum, og Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra verður norðaustanstormur og varasamt ferðaveður. Gera má ráð fyrir 15 til 23 metrum á sekúndu, en allt að 35 til 40 metrar á sekúndu í hviðum þar sem hvassast verður. Á Vestfjörðum og Norðurlandi Eystra verður sömuleiðis lítið skyggni öðru hvoru í skafrenningi.

Á Austurlandi að Glettingi og á Austfjörðum verður norðanhríð eða norðanstórhríð, 13 til 20 metrar á sekúndu á Austurlandi en 15 til 23 metrar á sekúndu og allt að 35 metrar á sekúndu í hviðum á Austfjörðum, með snjókomu og skafrenningi. Lítið skyggni, einkum á fjallvegum og ekkert ferðaveður.

Hvassast verður á Suðausturlandi og Miðhálendinu þar sem spáð er norðaustanstormi og stórhríð. 20 til 28 metrar á sekúndu á Suðausturlandi en allt að 45 metrar á sekúndu í hviðum þar sem hvassast er, öðru hvoru lítið skyggni í skafrenningi og varasamt ferðaveður. Á miðhálendinu er spáð 20 til 30 metrum á sekúndu, hvassast sunnan jökla, og þar verður ekkert ferðaveður.

Uppfært:

Skömmu fyrir klukkan þrjú voru einnig gefnar út viðvaranir fyrir Norðurland eystra. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×