Lífið

Leik­stjórinn Jean-Marc Vallé­e er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Jean-Marc Vallée á blaðamannafundi árið 2015.
Jean-Marc Vallée á blaðamannafundi árið 2015. EPA

Kanadíski leikstjórinn Jean-Marc Vallée er látinn, 58 ára að aldri. Hann er þekktur fyrir að hafa leikstýrt stórmyndum á borð við Dallas Buyers Club og Wild og þáttunum Big Little Lies og Sharp Objects.

Variety segir að hann hafi látist í bústað sínum í Quebec City, en að ekki liggi fyrir að svo stöddu hvað hafi dregið Vallée til dauða.

Vallée var tilnefndur til Óskarsverðlauna árið 2013 fyrir bestu klippingu fyrir myndina Dallas Buyers Club. Leikararnir Jared Leto og Matthew McConaughey unnu báðir til Óskarsverðlauna fyrir frammistöður sínar í myndinni sem fjallar um Ron Woodroof, sem glímir við alnæmi og smyglar lyfjum til annarra alnæmissjúklinga í Texas.

Árið 2014 leikstýrði Vallée svo myndinni Wild með Reese Witherspoon í aðalhlutverki. Vallée og Witherspoon héldu svo samstarfinu áfram með þáttunum Big Little Lies á HBO sem nutu mikilla vinsælda og skörtuðu í aðalhlutverkum þeim Witherspoon, Nicole Kidman, Lauru Dern, Shailene Woodley og Zoë Kravitz.

Vallée vann að gerð nýrra þátta fyrir HBO þegar hann lést að því er segir í frétt Variety.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.