Innlent

Fjöl­skyldu­faðir á Vestur­landi hreppti milljónirnar 110

Árni Sæberg skrifar
Hundrað og tíu þúsund Brynjólfar Sveinssynir eru ekki amaleg jólagjöf.
Hundrað og tíu þúsund Brynjólfar Sveinssynir eru ekki amaleg jólagjöf. HHÍ

Stærsti vinningur í sögu Happdrættis Háskóla Íslands gekk út í kvöld, heilar hundrað og tíu milljónir króna. Sá heppni er fjölskyldufaðir á Vesturlandi sem hefur verið áskrifandi að happdrættismiðum til fjölda ára.

„Þetta er sennilega ein stærsta jólagjöf sem hægt er að hugsa sér – 110 milljónir króna og það skattfrjálsar,“ segir Úlfar Gauti Haraldsson, sölu- og markaðsstjóri Happdrættis Háskóla Íslands um gleðitíðindin í tilkynningu Happdrættis Háskóla Íslands.

Svo virðist sem markaðsetning HHÍ hafi borið árangur enda var nýtt sölumet slegið fyrir útdrátt desembermánaðar. Athygli vakti í vikunni þegar 110 milljónum var komið fyrir í glerkassa í miðri Kringlunni.

„Miðasalan fór langt fram úr okkur björtustu vonum. Við vitum að stóri vinningurinn var vissulega að trekkja að en fólk er ekki síður að kaupa miða til að styðja við uppbyggingu Háskóla Íslands. Hagnaðurinn af happdrættinu rennur allur í uppbygginguna og happdrættið hefur nú þegar fjármagnað á þriðja tug bygginga á háskólasvæðinu. Vonandi verða þær mun fleiri á næstu áratugum enda leggja þær grunninn að því stórkostalega starfi sem unnið er í Háskólanum,“ segir Úlfar Gauti.

Þá segir einnig að 4.200 miðaeigendur skipti með sér rúmlega 127 milljónum króna. Því hafi fleiri en fjölskyldufaðirinn heppni ástæðu til að gleðjast.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×