Innlent

Tölvu­­póst­­fangið gríðar­langa skorið ræki­lega niður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Búið að stytta hið ógurlega langa tölvupóstfang sem Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur var úthlutað á Alþingi.
Búið að stytta hið ógurlega langa tölvupóstfang sem Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur var úthlutað á Alþingi. Píratar.

Búið er að stytta tölvupóstfang Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þingmanns Pírata, þannig að nú inniheldur það aðeins fornafn og millinafn hennar í stað fulls nafns.

Arndís Anna vakti athygli á því á Alþingi í dag að hún hefði fengið ógurlega löngu tölvupóstfangi úthlutað er hún tók sæti á Alþingi á dögunum. Tölvupóstfangið var arndis.anna.kristinardottir.gunnarsdottir@althingi.is eða heil 53 stafbil.

„Lengra en meðaltölvupóstur,“ sagði Arndís Anna á þingi í dag þar sem hún kvartaði yfir hinu langa tölvupóstfangi. Kvörtun hennar virðist hafa borið árangur en á vef Alþingis má sjá að búið er að stytta tölvupóstfang hennar niður í arndis.anna@althingi.is.

Það er öllu styttra eða 23 stafabil. Var lengd tölvupóstfangs hennar því skorin niður um nærri helming.

Í samtali við Vísi segir Arndís Anna að hún hafi ekki fengið sérstaka tilkynningu um að tölvupóstfangi hennar hafi verið breytt. Sjálf hefði hún kosið að fá arndisanna@althingi.is en að hún geti þó sætt við nýja tölvupóstfangið.

Í ræðu hennar á Alþingi um málið benti Arndís á að þingmenn ættu að vera eins aðgengilegir og kostur er, þar með talið tölvupóstfang þeirra. Það gæti reynst fráhrindandi og erfitt um vik fyrir suma að reyna að hafa samband við þingmenn með gríðarlega löng tölvupóstföng.

„Ég vil því biðla til forseta að beita sér fyrir því að Alþingi þurfi ekki að beygja sig undir óþarfa duttlunga stjórnsýslunnar, sem í ofanálag stríða gegn þeim mikilvæga þætti lýðræðisins, að fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi séu almenningi eins aðgengilegir og kostur er,“ sagði Arndís Anna á þingi í dag en ræða hennar virðist hafa skilað árangri.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.