Innlent

Seðla­banka­stjóri vísar á­sökunum um rit­stuld á bug

Jakob Bjarnar skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist ekki hafa nýtt bók Bergsveins við skrif sín um landnám Íslands.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist ekki hafa nýtt bók Bergsveins við skrif sín um landnám Íslands. Stöð 2/Arnar

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sendi nýverið frá sér bók þar sem hann fjallar um landnám Íslands. Eyjan hans Ingólfs heitir bókin sú en Bergsveinn Birgisson rithöfundur og fræðimaður segir Ásgeir fara ránshendi um bók sína Leitin að svarta víkingnum án þess að geta heimilda.

„Mér koma mjög á óvart ásakanir Bergsveins Birgissonar um ritstuld sem hafa nú komið fram. Því er til að svara að ég nýtti ekki bók Bergsveins við skrif mín,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í stuttri yfirlýsingu sem hann sendi Vísi nú rétt í þessu.

Vísir greindi fyrr í dag frá efni greinagerðar sem Bergsveinn birti á Vísi en þar sakar hann Ásgeir um plagíarisma. Eða eins og segir meðal annars í greinargerð Bergsveins:

„Að saka einhvern um ritstuld er alvarlegt mál. Það gerir enginn að gamni sínu. En ritstuldur sá sem ég tel Ásgeir Jónsson vera sekan um í þessu tilfelli er að sama skapi grafalvarlegt mál. Það gerir málið enn alvarlegra að seðlabankastjóri Íslands sé uppvís að þjófnaði á hugverkum annarra.“

Ásgeir segir þetta úr vegi.

„Margir sagnfræðingar hafa lýst upphafi landnáms sem veiðimannasamfélagi og það er að mínu viti orðið að viðurkenndri söguskoðun. Um þetta er fjallað í upphafi bókar minnar Eyjan hans Ingólfs og ég hef aldrei álitið að ég væri að leggja eitthvað nýtt mörkum í því efni,“ segir Ásgeir.

Hann bætir því við að bók hans sé hagsöguleg greining á landnáminu með áherslu á tengslin við Suðureyjar og stofnanauppbyggingu landsins fram að stofnun Alþingis. 

„Áherslan er á verslun og viðskipti og síðan stofnanabyggingu landsins í breiðu samhengi. Ég vísa þessum ásökunum Bergsveins því alfarið á bug.“


Yfirlýsing Ásgeirs í heild sinni

„Mér koma mjög á óvart ásakanir Bergsveins Birgissonar um ritstuld sem hafa nú komið fram. Því er til að svara að ég nýtti ekki bók Bergsveins við skrif mín.

Margir sagnfræðingar hafa lýst upphafi landnáms sem veiðimannasamfélagi og það er að mínu viti orðið að viðurkenndri söguskoðun. Um þetta er fjallað í upphafi bókar minnar Eyjan hans Ingólfs og ég hef aldrei álitið að ég væri að leggja eitthvað nýtt mörkum í því efni

Annars er bók mín hagsöguleg greining á landnáminu með áherslu á tengslin við Suðureyjar og stofnanauppbyggingu landsins fram að stofnun Alþingis. Áherslan er á verslun og viðskipti og síðan stofnanabyggingu landsins í breiðu samhengi.

Ég vísa þessum ásökunum Bergsveins því alfarið á bug.

Virðingarfyllst

Ásgeir Jónsson“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×