Innlent

„Ég held að maður geti sagt í heildina tekið að þetta sé að sigla niður“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að heilt yfir litið sé faraldurinn á niðurleið hér á landi. Tólf hafa nú greinst með omíkron afbrigði veirunnar hér á landi.

Áttatíu greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og tíu á landamærum.

„Kúrfan undanfarið hefur verið niður á við. Fjöldinn hefur verið að fækka hægt og bítandi og gott að sjá þessar tölur í gær. En við eigum örugglega eftir að sjá einhverja aukningu á morgun og kannski þriðjudag, það er venjulega þannig eftir helgarnar en ég held að maður geti sagt í heildina tekið að þetta sé að sigla niður.“

Tólf hafa nú greinst með omíkron afbrigði veirunnar hér á landi og eru öll tilfellin enn bundin við Akranes. Hinir smituðu eru með tiltölulega væg einkenni. Þórólfur segir að samkvæmt erlendum upplýsingum sé ekki um alvarleg veikindi af völdum afbrigðisins.

„Þetta afbrigði er að greinast víða og eftir því sem ég sé í tilkynningum sem berast erlendis frá þá er ekki mikið um alvarleg veikindi sem betur fer og ég vona að það haldist þannig. En síðan þurfum við að sjá hvernig þessar rannsóknir koma út sem kanna hvort bóluefnin verndi gegn þessu afbrigði en það er ljóst að margir eru bólusettir og flestir fullbólusettir hjá okkur. Það er bara spurning hvort bólusetningin sé að milda sjúkdóminn verulega þannig það á margt eftir að skýrast.“

Sóttvarnalæknir skilaði heilbrigðisráðherra nýju minnisblaði í gær. Líkt og áður vill hann ekki gefa upp efni minnisblaðsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.