Innlent

Cyclot­honið verið hjólað í síðasta sinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Team Cube var liðið sem kom fyrst í mark í keppninni í fyrra, þegar hún var haldin í síðasta sinn.
Team Cube var liðið sem kom fyrst í mark í keppninni í fyrra, þegar hún var haldin í síðasta sinn. Síminn Cyclothon

Síminn Cyclothon, sem var stærsta hjólreiðakeppni landsins, verður ekki haldin á næsta ári. Stofnendur keppninnar þakka öllum sem komið hafa að keppninni frá stofnun hennar árið 2012.

„Við sem stöndum að Cyclothoninu tilkynnum með trega að keppnin hefur runnið sitt skeið og verður ekki haldin á ný á næsta ári. Það sem hófst sem keppni milli nokkurra vina árið 2012 og varð að stærstu hjólreiðakeppni landsins árið 2017 þegar yfir 1300 manns tóku þátt hefur átt undir högg að sækja á tímum heimsfaraldurs og því tökum við þessa erfiðu ákvörðun,“ skrifar Magnús Ragnarsson, annar stofnenda keppninnar, á Facebook.

Keppnin var haldin síðasta sumar, þá í annað sinn undir merkjum símans. Áður hafði keppnin verið haldin undir merkjum flugfélagsins WOW-air, sem varð gjaldþrota árið 2019.

„Við erum stoltir af svo mörgu. Meira en 5.000 einstaklingar hafa tekið þátt í ævintýrinu, hjólaðir hafa verið nær milljón kílómetrar og við höfum safnað á annað hundruð milljóna króna til góðra verka í samfélaginu. Það allra besta er að engin alvarlega slys hafa orðið í keppninni þó að vissulega hafi einhverjir, þar með talið við sjálfir, flogið á hausinn, brákast eða skrámast,“ skrifar Magnús.

Hann bætir því við að hann og Skúli Mogensen, hinn stofnandi Cyclothonsins, séu endalaust þakklátir þátttakendum, styrktaraðilum og öllum sem hjálpað hafi til á bak við tjöldin.

„Nú taka nýjar áskoranir við, nýjar keppnir og ný markmið.

Takk fyrir að taka þátt í ævintýrinu með okkur Skúla.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×