Innlent

Öflugt hand­verks­fólk á Suður­nesjum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Gerður Sigurðardóttir, talsmaður handverkshópsins í Grófinni í Keflavík í Reykjanesbæ.
Gerður Sigurðardóttir, talsmaður handverkshópsins í Grófinni í Keflavík í Reykjanesbæ. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Handverksfólk af öllum Suðurnesjum hefur nú meira en nóg að gera fyrir jólin við að framleiða vörur á markað, sem hópurinn stendur að í Grófinni í Keflavík. Tuttugu og fjórir handverksmenn standa að markaðnum, sem er opinn allt árið.

Duus Handverk er til húsa í Grófinni 2 til 4 í Reykjanesbæ í Keflavík þar sem mjög fjölbreytt úrval af handverki frá handverksfólki á svæðinu er á borðstólnum, allt fallegt og mismunandi handverk. Handverksfólkið skiptist á að vera á staðnum og taka á móti viðskiptavinum.

„Það eru mest megnis ferðamenn sem koma til okkar en okkur vantar svolítið að fá Íslendingana. Það eru margir sem halda að við séum bara með opið á Ljósanótt og svo fyrir jólin en við erum með opið allt árið um kring,“ segir Gerður Sigurðardóttir, talsmaður handverkshópsins.

Mjög fallegt handverk og fjölbreytt er til sölu í maraðshúsi hópsins í Keflavík.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Munir tengdir eldgosinu á Reykjanesi eru vinsælir á markaðnum eins og eldfjallalopapeysurnar.

„Já, það eru steinar, lopapeysurnar, myndir og málverk. Svo erum við að sjálfsögðu komin í jólaskap með fullt af fallegum jólavörum, sjón er sögu ríkari“, segir Gerður.

Eldfjallalopapeysurnar á markaðnum hafa rokið út eins og heitar lummur.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Gerður segir mjög gaman að taka þátt í markaðnum og vinna með handverksfólkinu á svæðinu.

„Þetta er bara mjög skemmtilegt enda frábær hópur af fólki, konur og karlar, sem taka þátt, ég vildi ekki vera án þess, þetta er góður félagsskapur.“

Duus Handverk er til húsa í Grófinni í Keflavík í Reykjanesbæ.Magnús Hlynur Hreiðarsson
Mikið af fallegum jólavörum eru á handverksmarkaðnum.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.