Lífið

Birkir Blær kominn í undanúrslit í Svíþjóð

Árni Sæberg skrifar
Birkir Blær til vinstri ásamt Peter Jöback á sviði í síðasta þætti.
Birkir Blær til vinstri ásamt Peter Jöback á sviði í síðasta þætti. Skjáskot/Idol

Velgengni Birkis Blæs Óðinssonar í sænska Idol hélt áfram í kvöld og er hann nú kominn í undanúrslit keppninnar.

Á dögunum sagði Birkir Blær í samtali við Vísi að hann hefði aldrei búist við því að komast í fimm manna úrslit. Nú hefur hann gert gott betur og stefnir óðfluga á sjálf úrslit Idolsins.

Í kvöld var það svíinn Fredrik Lundman sem heltist úr lestinni en hann sagðist þó fullur þakklætis eftir keppnina.

„Ég hef fengið þann heiður að sýna Svíþjóð hvað tónlistin mín þýðir fyrir mig,“ sagði hann eftir að úrlsitin voru kynnt.

Tileinkaði foreldrum sínum lag kvöldsins

Fyrirkomulagið í kvöld var ólíkt því sem hefur verið hingað til. Áður höfðu áhorfendur heila viku til þess að kjósa en í kvöld fluttu keppendur lög sín og síðan kosið strax í kjölfarið.

Þema kvöldsins var ástin sjálf og áttu keppendur að syngja lag sem þeir tengja við einhvern kærkominn sér.

Birkir Blær söng lagið Finally eftir James Arthur og tileinkaði flutninginn foreldrum sínum, líkt og góðum syni sæmir.

„Ég er mikill James Arthur aðdáandi en þetta er samt ekki endilega lag sem ég hef hlustað mikið á með foreldrum mínum, heldur finnst mér textinn hafa sérstaka tengingu við þau,“ segði Birkir Blær í samtali við Vísi í vikunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×