Menning

Það er svo margt galið á Íslandi

Jakob Bjarnar skrifar
Þorgrímur Þráinsson er hispurslaus í þessu höfundatali. Hann segir meðal annars hreinskilnislega frá því að það hafi verði svekkjandi í gegnum tíðina að vera statt og stöðugt hafnað hjá umsóknanefndinni þeirri sem sér um úthlutun listmannalauna.
Þorgrímur Þráinsson er hispurslaus í þessu höfundatali. Hann segir meðal annars hreinskilnislega frá því að það hafi verði svekkjandi í gegnum tíðina að vera statt og stöðugt hafnað hjá umsóknanefndinni þeirri sem sér um úthlutun listmannalauna. vísir/vilhelm

Þorgrímur Þráinsson er einn vinsælasti rithöfundur þjóðarinnar. Honum blöskrar aðgerðarleysið gagnvart þeim vanda sem blasir við ólæsi ungmenna og telur kerfið drepa allt í dróma. Í þessu höfundatali er einnig tekið á hinni heitu kartöflu sem eru listamannalaunin.

Dugnaður er líkast til það orð sem maður myndi velja ef maður fengi aðeins eitt til að lýsa Þorgrími. Hann hefur sent frá sér á fjórða tug bóka, og verið um áratugaskeið einn allra vinsælasti barna- og unglingabókahöfundur landsins. Þorgrímur var þekkt knattspyrnukempa úr Val þegar hann kom mörgum á óvart með því að senda frá sér unglingabókina Með fiðring í tánum 1989 og strax á næsta ári sló hann rækilega í gegn með Tár, bros og takkaskór. Þá varð ekki aftur snúið.

Þó ekkert hafi skort á vinsældirnar hefur Þorgrímur ekki notið viðurkenningar hinnar óræðu bókmenntaelítu og hefur þrátt fyrir tilkomumikinn feril ekki verið ofarlega á blaði þegar kemur að úthlutun listamannalauna. Hann hefur ekki látið það slá sig út af laginu, þvert á móti og er með tvær bækur í jólabókaflóðinu að þessu sinni.

Vísir ræddi við Þorgrím í nokkrum lotum, milli þess sem hann stóð í ströngu við að blása baráttuanda í hóp íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem gerði jafntefli við Rúmena en töpuðu 3-1 gegn Makedónum; en Þorgrímur hefur undanfarin ár starfað í kringum karlalandsliðið í knattspyrnu. En hér eru það bækur sem eru til umræðu. Ný bók eftir Þorgrím ber titilinn Tunglið, tunglið taktu mig. Sögusviðið heldur gamaldags, eða sveitin eins og þeir sem komnir eru til ára sinna þekkja hana.

Nútímabörn verða að kynnast sveitinni

Ekki stendur á svörum þegar Þorgrímur er spurður um þetta, hann setur sig umsvifalaust í fyrirlestrarstellingar og blaðamaður tekur niður nótur:

„Fram að tólf ára aldri var ég öll sumur í sveit á Snæfellsnesi og mér finnst mikilvægt að gefa nútímakynslóðinni innsýn í þann heim sem hún fer að mestu leyti á mis við. Það að mjólka kýr, seilast eftir eggjum undan hænum, taka á móti lömbum eða kálfum, veiða fisk í ám, gleyma sér úti á túni, elta hrossaflugur, eiga einlægt samtal við ömmu og afa og upplifa kyrrðina í sveitinni voru forréttindi krakka fyrir nokkrum áratugum. 

Þorgrímur segist hafa átt það til í eldri bókum sínum hafa boðskap sagna sinna of umbúðalausan en nú í seinni tíð er betra að láta hann liggja á milli lína. Besti boðskapurinn sé sá ósýnilegi sem smýgur engu að síður inn í sálina og hreyfi þannig við lesendum.vísir/vilhelm

Ég er ekki frá því að ef nútímabörn fengju að njóta sveitasælu í nokkrar vikur á hverju ári myndi draga úr kvíða og þunglyndi og þau svæfu betur. Sem myndi í kjölfarið auka sjálfstraustið og þar af leiðandi bæta árangur þeirra í skóla. Og síðan í lífinu almennt. Fjölbreytt snemmtæk íhlutun er lykilatriði í lífi barna, sem og náttúran og samskipti við dýr.“

Þorgrímur segir það annars svo að sögusvið bóka hans velji sig fremur en hann það. Og hann vilji vera trúr þeim hugmyndum sem skjóta upp kollinum.

„Sumar tengjast æskuárunum og mér finnst ánægjulegt leyfa krökkum að gægjast inn um glugga fortíðar, sveitasæluna. Hún er sefandi og nærandi. Ég er hvorki fyrir vísindaskáldskap né fljúgandi ofurhetjur en aðrir eru frábærir á þeim vettvangi.“

Á auðvelt með að setja sig í spor sögupersóna

Sveitina sjáum við lesendur með augum ungrar stúlku, Máneyjar; af hverju velur þú það sjónarhorn?

„Vissulega er auðveldara fyrir mig að setja mig í spor drengja en nokkrar minna eftirminnilegustu bóka, eins og Ertu Guð, afi? og Ég elska máva, hafa þetta sama sjónarhorn. 

Ég er líka meðvitað að reyna að þóknast báðum kynjum með því að hafa aðalsöguhetjurnar stundum drengi og stundum stúlkur. 

Og þar sem ég hef alið upp stráka og stelpu finnst mér auðvelt að setja mig í spor beggja og ekki skipta máli hvort kynið er í aðalhlutverki.“

Pælirðu mikið í sjónarhorni og/eða frásagnarhætti þegar þú skrifar bækur þínar?

„Ég er ekki frá því að mér finnist skemmtilegra að skrifa bækur í 1. persónu því þá finnst mér ég vera viðkomandi söguhetja, hvort kynið sem hún er. Bókin Hjálp er til að mynda 3. persónu frásögn, fyrst og fremst vegna þess að þegar unglingum í þeirra sögu er rænt og þeim ekið á Vestfirði, þurfti einn kafli að fjalla um dauðaleit að þeim á Egilsstöðum. Það hefði ekki gengið í 1. persónu frásögn. Þótt það hljómi kannski furðulega finnst mér auðvelt að setja mig í spor söguhetja, hvort sem þær eru tíu ára eða áttatíu ára.“

Besti boðskapurinn sá ósýnilegi

Hvernig gekk að setja þig í spor Máneyjar?

„Það kemur fram snemma í bókinni að Máney er á vægu einhverfurófi. Ég þekki krakka sem eru á slíku rófi og las mér einnig til um einhverfu. Ég er ekki frá því að flest okkar séu á einhverju rófi. Ég tengi til að mynda við flest af því sem Máney gerir og hver veit nema ég fengi einhverja greiningu ef ég léti á það reyna. 

Þorgrímur á ekki í neinum erfiðleikum með að setja sig í spor sögupersóna sinna, hvort heldur er um stúlkur eða pilta að ræða.vísir/vilhelm

Mig langaði að skapa persónu sem notar sérstök orð af því hún er alin upp af ömmu sinni og afa, hagar sér á ákveðinn hátt og dundar sér við það sem þykir kannski furðulegt. Ég er ekki viss um að lesendur myndu átta sig á því að Máney er á einhverfurófi nema vegna þess að orðið kemur tvisvar fyrir í sögunni. Í skólanum er hún kölluð einhverfi prófessorinn en afi hennar segir að „hver hafi sitt fjall að klífa“ og að það sé eftirsóknarvert að vera sérstakur. Ég tek undir það. Það pirrar mig stundum hvað ég reyni að vera eðlilegur.“

Þorgrímur segir mikilvægt að að krakkar átti sig á því að við erum öll allskonar og eigum að taka tillit hvert til annars.

Er einhver sérstakur boðskapur í bókinni og hvað finnst þér almennt um að barnabækur eigi að innihalda boðskap?

„Ég er þeirrar skoðunar að besti boðskapurinn sé sá ósýnilegi sem smýgur engu að síður inn í sálina og hreyfi þannig við lesendum. Fyrir þrjátíu árum hætti mér til að vera með of mikinn og sýnilegan boðskap en núna lauma ég honum inn á milli lína.“

Telur barnabókahöfunda ekki síður njóta virðingar

Þú hefur verið einstaklega farsæll og vinsæll höfundur. Skrifað ýmsar tegundir, fyrir fullorðna en ekki síst börn og unglinga. Eftir þinn langa feril og ef þú lítur til baka, hvernig metur þú stöðu barnabókahöfunda í samanburði við höfunda sem fást við skrif ætluð fullorðnum? Njóta þeir minni virðingar, finnst þér?

„Ég finn ekki fyrir því að höfundar barnabóka njóti minni virðingar nema þegar kemur að úhlutun listamannalauna. Þá er eins og úthlutunarnefndin sé ekki meðvituð um hvaða aldurshópur þarf mest á góðum, fjölbreyttum bókum að halda. Ekki síst í ljósi þess að marga nemendur í grunnskóla skortir orðaforða og þar af leiðandi lesskilning. Afleiðing þess eru daprar einkunnir og skortur á sjálfstrausti. Slíkt getur aukið vanlíðan og kvíða. Sjálfstraustið stjórnar vegferð okkar í lífinu.“

Þorgrímur segir ólæsi meðal ungmenna stórkostlegt vandamál sem ekki er tekið á að neinu viti.vísir/vilhelm

Þorgrímur segir að sér þyki hreint út sagt kjánalegt þegar barnabókahöfundar eru spurðir að því hvenær þeir ætli að skrifa bækur fyrir fullorðna: „Ég hef aldrei heyrt höfund fullorðinsbóka fá spurninguna, hvenær ætlarðu að skrifa barnabók?“

Hann segir að til allrar hamingju séu sífellt fleiri að birtast á ritvelli barnabóka með góðar og fjölbreyttar bækur.

„Það eru engin tvö börn eins og það skiptir máli að ungir lesendur fái bækur í hendur sem tengjast áhugamálum þeirra. Það kveikir neistann, kemur þeim á bragðið og þau vilja lesa meira. Því meira sem nemendur lesa, þeim mun betri verður orðaforðinn, námsárangurinn og síðast en ekki síst, sjálfstraustið. Ég hef horft upp á krakkar uppljómast í skóla í skapandi skrifum. Í slíkum tímum segi ég frá því hvernig ég vinn sem rithöfundur, síðan fá nemendur verkefni, skrifa í 40 mínútur og lesa svo upp fyrir bekkinn, ef þeir vilja. Það kemur börnum á óvart hversu vel þeim gengur, þegar þau njóta stuðnings og hvatningar.“

Læsi látið dankanst á Íslandi

Nú er Þorgrímur kominn á heimavöll, farinn að tala um sitt hjartans mál: Hann segir læsi barna og ungmenna mikilvægasta lýðheilsumálið og það að horfa upp ólæsi breiðast út sé okkur sem þjóð til skammar.

„Flestir horfa á vandamálið með hendur í vösum. Höfundar barna- og ungmennabóka eru vannýttir í grunnskólum. Við gætum skipt með okkur verkum, farið reglulega í alla skóla landsins með skapandi skrif og upplestur; kveikt neista.“

Þorgrímur segist hafa viðrað þessa hugmynd við stjórnvöld viðkvæðið er að ekki sé til fjármagn.

„Við höfum varið yfir 300 milljörðum í mótvægisaðgerðir við Covid, sem er gott og vel, en það gæti kostað um 40 milljónir árlega að virkja barna- og unglingabókahöfunda í grunnskólum. Ég tel að kennarar tækju því fagnandi. 

Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á aðgerðaleysi í þessum efnum, ekki síst meðal þeirra sem hafa völd til að snúa þessari óheillaþróun við. 

Snemmtæk íhlutun á ekki upp á pallborðið en við eigum alltaf fjármagn til að plástra seinna meir yfir aðgerðaleysið.“

Og Þorgrímur spyr og hann spyr aftur þannig að saklausum blaðamanni stendur ekki á sama:

„Hvað kostar það samfélagið þegar nemandi flosnar upp úr skóla með brotna sjálfsmynd, þarf á sálfræðingi að halda, treystir sér ekki í vinnu og þiggur atvinnuleysisbætur árum saman? Svo bætist kvíði og þunglyndi kannski við. Ef við berum saman afleiðingar Covid og ólæsis mun ólæsi hafa mun verri áhrif á samfélagið, andlega, líkamlega og fjárhagslega, þegar til lengri tíma er litið. Upplýst fólk veit þetta en fríar sig ábyrgð.“

Hver er ábyrgð fjölmiðla?

Þorgrímur beinir því næst spjótum sínum að fjölmiðlum, segir að daglega flytji ríkisfjölmiðlar fréttir eða ekki-fréttir af Covid-ástandi.

„Ég hef aldrei séð ríkisfjölmiðil, eða aðra, hvetja foreldra til að halda bókum að börnum og spyrja uppalendur gagnrýnna spurninga varðandi læsi. Það þarf að hvetja okkur til dáða á þessum vettvangi. Það mætti sleppa einu lagi á sólarhring á Ríkisútvarpinu og koma með fjölbreyttar hvatningarauglýsingar til foreldra í staðinn. Hver er samfélagsleg ábyrgð fjölmiðla?“

Að mati rithöfundarins er hér um meiriháttar vandamál að ræða og við öll séum ábyrg fyrir því að sífellt fleiri krakkar geta ekki lesið sér til gagns, ekki síst við foreldrar.

„Á Íslandi ríkir mesta velmegun í heimi en miðstýring í skólamálum er ekki börnum í hag. Nánast allir eru á móti því að mæla leshraða en enginn stöðvar slík próf, jafnvel þótt þau brjóti börnin niður. Lesskilningurinn skiptir meira máli. Ég treysti skólastjórnendum og kennurum mun betur til að leggja réttu línurnar fyrir nemendur en einhverri stofnun. Það á að treysta þeim sem hafa verið í grasrótinni árum eða áratugum saman, í daglegum samskiptum við skjólstæðinga sína, börnin. Það þarf aukið frelsi í kennsluháttum og efnisvali. 

Kennarar eru mikilvægasta starfstétt þjóðarinnar.“

Og Þorgrímur er ekki hrifinn af styttingu náms til stúdentsprófs í þrjú ár.

„Rökin voru þau að það væri fjárhagslega hagkvæmt að fá ungt fólk fyrr út á vinnumarkaðinn! Hvað með þá auknu pressu sem var lögð nemendur með tilheyrandi kvíða, þunglyndi og svefnleysi, svo ekki sé talað um brottfall úr íþróttum og skólum. Það er ekki skrítið að svona mistök eigi sér stað þegar bara einhver úr röðum stjórnarflokkanna verður ráðherra, af því viðkomandi hafði verið lengst í flokknum og ætti skilið ráðherrastól. Kallast það fagmennska? Það er svo margt galið í íslensku samfélagi. En líka svo margt geggjað.“

Svekktur og sár vegna úthlutunar listamannalauna

Best er að hamra járnið meðan það er heitt og beina sjónum að öðru umdeildu fyrirbæri sem snertir Þorgrím beint. Sem eru listamannalaunin. Sem hann hefur sótt reglulega um en sjaldan fengið. Ýmsir hafa viljað hafa það til marks um einhvers konar ráðandi elítisma í bókmenntageiranum. Snobb jafnvel og hafa ýmsir í gegnum tíðina mótmælt þessu fyrir þína hönd. Hvernig snýr þetta við þér, ef þú ert alveg hreinskilinn?

„Ég viðurkenni fúslega að ég var bæði sár og svekktur þegar hugmyndum mínum var hafnað ár eftir ár. Hugmyndinni að bókinni Ertu Guð, afi? var hafnað en sú bók er ein besta íslenska barnabók sem hefur verið skrifuð, þótt ég segi sjálfur frá.“

Þorgrímur lýsir því af hreinskilni að honum hafi sárnað það að hafa ítrekað verið hafnað af úthlutunarnefndinni en því miður sé það svo að við búum í kunningasamfélagi og tengslanetið skiptir gríðarlega miklu máli.vísir/vilhelm

Þorgrímur segir úthlutunarnefnd halda því fram að höfundum sé ekki hafnað heldur hugmyndum. Ef svo er ætti vitanlega að sækja um listamannalaun í skjóli nafnleyndar.

„Það hlýtur að vera sanngjarnast. Við búum í kunningjasamfélagi og tengslanetið skiptir gríðarlega miklu máli. Ég samgleðst þeim sem er gert kleift að helga sig ritstörfum. Fyrir nokkrum árum var með bent á það að kollegi minn hefði fengið um 75 milljónir í listamannlaun á þrjátíu ára ferli en ég tæpar tvær milljónir á jafn löngum tíma. Viðkomandi hafði skrifað færri bækur, fengið færri verðlaun og ekki notið sömu vinsælda. Hjartað tekur engin aukaslög þegar mér er hafnað ár eftir ár. 

Mótlætið hefur alltaf hvatt mig til dáða og ég ætti því að þakka úthlutunarnefndinni fyrir höfnunina.“

Þorgrímur segist annars helst móðgaður fyrir hönd Arndísar Þórarinsdóttur en hún átti tvær bækur sem voru tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í fyrra og önnur hreppti verðlaunin, Blokkin á heimsenda. Ljóðabókin hennar var líka frábær.

„Þetta var í fyrsta skipti sem höfundur átti tvær tilnefndar bækur. Í kjölfarið fékk hún núll krónur í listamannalaun 2021. Úthlutunarnefndin hlýtur að hafa farið með veggjum næstu mánuði.“

Listamannalaun skekkja samkeppnisstöðuna

Ekki er hægt að sleppa þessu umræðuefni og vert að spyrja Þorgrím, sem hefur sinnt ritstörfum samhliða öðrum verkefnum, hvort samkeppnisstaða höfunda sé ekki rammskökk ef einn er á listamannalaunum og annar ekki?

„Við verðum aldrei sammála um hvað er list og hvað ekki og það er fullkomin heimska að deila um smekk. Auðvitað hlýtur að vera ánægjulegt að fá rúmlega 4 milljónir í starfslaun áður en bók fer í sölu og vissulega skekkir það samkeppnisstöðuna. En svona er þetta og verður væntanlega áfram. Sanngjarnasti mælikvarði vinsælda eru útlán á bókasöfnum. Greiðslur úr Bókasafnssjóði ættu að vera mun hærri svo að vinsælir höfundar gæti framfleytt sér af útlánum bóka sinna. Það hlýtur að vera sanngjarnara að almenningur skapi tekjur fyrir rithöfunda með því að velja bækur á bókasöfnum frekar en að þriggja manna nefnd úthluti fleiri hundruð milljónum með geðþótta ákvörðunum. 

Fyrir nokkrum árum var með bent á það að kollegi Þorgríms hefði fengið um 75 milljónir í listamannlaun á þrjátíu ára ferli en hann tæpar tvær milljónir á jafn löngum tíma. Sá hafði skrifað færri bækur, fengið færri verðlaun og ekki notið sömu vinsælda.vísir/vilhelm

Framlag til Bókasafnssjóðs var skammarlega lágt en mennta- og menningarmálaráðherra hækkaði það fyrir nokkrum árum. En betur má ef duga skal. Þegar vinsælir rithöfundar hafa skrifað yfir fjörutíu bækur ættu þeir að geta lifað á útlánum bóka sinna.“

Þorgrímur segir að án bókmennta og listar væri þjóðin slypp og snauð. Listamannalaunin hjálpi þar uppá sakir þó ranglát megi heita.

„Lífið er og verður aldrei sanngjarnt og fólki verður alltaf mismunað, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Auðvitað væri frábært að geta helgað sig ritstörfum síðustu fjörutíu árin en hver veit nema ég detti í einhvern lukkupott í framtíðinni.“

En, hvernig lýst þér á tekjutengingu listamannalauna, gæti það verið spor í átt að meiri sanngirni?

„Það hljómar ljómandi en líklega yrði deilt um hvert launaþakið ætti að vera. Og sú umræða gæti varað í áratugi. Það virðist taka ár og öld að ná fram breytingum almennt samanber kennsluaðferðir, svo ég nefni það aftur. Reyndar hafa fjölmargir skólar sýnt frábært fordæmi hvað aðferðafræði varðar, haft hugrekki til að hoppa út fyrir bókina.“

Steingeit og situr ekki auðum höndum

Við setjum lokið á þennan kraumandi pott sem eru listamannalaunin. Og snúum okkur að Þorgrími sjálfum, manninum sem virðist búa yfir óþrjótandi orku.

„Ég er steingeit og þær eigi víst erfitt með að sitja auðum höndum. Mér finnst bæði gott og gaman að hafa mikið fyrir stafni en það getur líka orsakað meðalmennsku. „Krakkarnir“ mínir eru 29, 25, 21 árs og öll á góðum stað í lífinu, af því þau hafa áttað sig á orsök og afleiðingu, sem börn í grunnskóla velta annars ekki mikið fyrir sér. Uppeldi okkar hjóna er lokið og ég er að mestu leyti frjáls. Ég er sannfærður um að ég hefði getað gert betur sem foreldri þegar börnin voru ung en þá var vitneskja mín takmörkuð,“ segir Þorgrímur við spurningunni um það hvernig honum gangi að samþætta störf og uppeldi.

„Ég hef verið kvæntur Ragnhildi Eiríksdóttur í rúm þrjátíu ár og hún er algjör snillingur. Þekktustu tískuvörumerki heims ættu vera að slást um að ráða hana í vinnu. Hún er of hógvær og „later bloomer“, en samt hrókur alls fagnaðar og á eftir að láta ljós sitt skína.“

Þorgrímur segist sækja sér orku í kröftuga hreyfingu.

„Mér finnst gaman í ræktinni og þannig hreinsa ég rykið úr höfðinu. Svo er gott að hanga í heitum og köldum pottum í sundi og leika sér í golfi. Það kemur fyrir að ég nenni ekki í ræktina vikum saman enn þá er stutt í pirringinn.“

Getur ekki stutt neinn stjórnmálaflokk í dag

Þér er mikið niðri fyrir, þú vilt bæta samfélagið, það fer ekki á milli mála; hefur aldrei staðið til að fara í pólitík og þá jafnvel stefna á þing?

„Þegar ég hef verið þreyttur á aðgerðaleysi stjórnvalda í mikilvægum málaflokkum hefur mig langað að stofna Lýðheilsuflokkinn og einblína á forvarnir, snemmtæka íhlutun, uppeldismál, skólamál, íþróttaiðkun – andlega og líkamlega heilsu. 

Þorgrímur er orkubolti sem vill láta verkin tala. Því fer það verulega í taugarnar á honum hversu svifaseint kerfið er að bregðast við vanda sem blasir við.vísir/vilhelm

Allir foreldrar vilja börnum sínum allt hið besta. Ég man ekki eftir því að nokkur stjórnamálaflokkur hafi sett þessi mál í forgang af einhverri alvöru. Þegar ég sinnti forvarnastarfi fyrir heilbrigðisráðherra var fjármagnið takmarkað. 

Ég hef í þrígang komið að skýrslu forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra um bætt heilbrigði þjóðarinnar en áður en vinnan hófst var okkur sagt að það væru engir peningar til. Er þetta sýndarmennska í hnotskurn?“ 

spyr Þorgrímur og svarið liggur í loftinu.

Þorgrímur segir það ekki koma til greina í dag að fara í framboð fyrir einhvern tiltekinn sjórnmálaflokk, hann á erfitt með að fylgja einni ákveðinni flokkslínu.

„Ég er hlynntur persónukjöri og það er heiðarlegt og flott fólk í öllum flokkum. Einstaklingar með heilbrigða sýn á lífið og hagsmuni allra landsmanna að leiðarljósi, munu ná samkomulagi um aðgerðir, öllum til heilla. Ef ég væri í framboð í dag og yrði spurður út í efnahagsmál, utanríkismál, sjávarútveg, ESB eða hvað þetta allt heitir stæði ég á gati. Ég hef ekki áhuga á að þykjast vita eitthvað en vissulega er áhugavert að kynna sér ýmsa þætti sem hafa áhrif á okkar daglega líf.“

Hittir fimm þúsund ungmenni árlega

Þorgrímur fordæmir kerfið sem hann segir að drepi öll mál sem horfa til framfara í dróma.

„Það er ekki öfundsvert að vera ráðherra því fjöldi hagsmunasamtaka sækir án efa að þeim alla daga. Það hlýtur að þurfa sterk bein til að standa af sér fjölbreyttan storm og vera sífellt í kastljósi fjölmiðla. Jafnvel þótt ráðherrar vilja gera breytingar hlaupa þeir á þann vegg sem embættismannakerfið er. Hinn ósýnilegi embættismaður stjórnar miklu meiru en almenningur gerir sér grein fyrir.“

Áhugasvið Þorgríms markast af því sem hann hefir sagt í þessu viðtali. Ef við bregðumst börnum í uppeldis- og skólamálum þurfa þau að takast á við brotna sjálfsmynd og vanmátt árum, eða áratugum saman. Og foreldrar verða oft úrræðalausir.

„Eflaust er það mikilvæg reynsla að sitja á þingi og reyna að hafa áhrif til góðs en almennt virðast þingmenn, ekki síst í stjórnarandstöðu, ansi valdalitlir. Það freistar mín ekki af því mig langar að gera gagn í samfélaginu. 

Þorgrímur fer árlega í skóla landsins og flytur fyrirlestur á hverjum stað um sig. Hann hittir fimm þúsund ungmenni árlega.vísir/vilhelm

Síðastliðin þrettán ár hef ég markvisst haldið hvatningarfyrirlestur fyrir nemendur í 10. bekki sem ég kalla Verum ástfangin af lífinu. Og annað slagið ræði ég við yngri nemendur og kenni skapandi skrif. Ég næ að hitta um 5000 nemendur á ári. Þannig tel ég mig geta haft áhrif á unga fólkið. Ef ég næ að hreyfa við einum nemanda í hverjum bekk er tilgangnum náð.“

Og þá erum við einmitt komin að seinni bók Þorgríms fyrir þessi jólin – Verum ástfangin af lífinu – bók sem höfundur er afar stoltur af en hún byggist á fyrirlestrum hans.

„Framtíðin er og verður alltaf óskrifað blað en við getum haft áhrif á hana með því að setja okkur markmið og leggja okkur fram alla dag. Það fær enginn sjálfstraust í afmælisgjöf eða góðar einkunnir í jólagjöf. Þetta snýst um litlu hlutina dags daglega. Annað slagið er nauðsynlegt og þroskandi að stökkva út í óvissuna,“ segir Þorgrímur um hvað sé á döfinni.

Krefjandi að halda athygli ungmenna í 80 mínútur

„Minn draumurinn er að halda áfram með fyrirlestra næstu fimm, sex árin en síðan einbeita mér að því að skrifa – síðustu fjörutíu ár ævinnar. Það að skrifa sjónvarpsþætti heillar mig mest í augnablikinu.“

Þorgrímur lýsir því þannig að hann vinni í fyrirlestri sínum á sumrin en hann breytist um þrjátíu prósent á milli ára. Þorgrímur fylgir þessu verkefni vel eftir.

Þorgrímur starfar hjá KSÍ, hann rekur mikla fyrirlestrarröð sem hann keyrir árlega milli skóla landsins og lætur sig ekki muna um að senda frá sér tvær bækur fyrir þessi jólin. Hann verður seint sakaður um leti.vísir/vilhelm

„Allir skólar fá póst frá mér um miðjan ágúst og svo er ég mættur í skólasetningu, oftast í Árbæjarskóla. Í kjölfar þess eru næstum allir dagar bókaðir fram á vor. Þar sem flest skólafólk veit um hvað ég fjalla er mikil ásókn í að fá fyrirlesturinn snemma á skólaárinu. Ég reyni að ljúka við Austfirði og Vestfirði áður en veturinn gengur í garð og svo er ég fyrir norðan í febrúar. Aðra skóla heimsæki í dagsferðum. Stundum er ég með einn fyrirlestur á dag, annað slagið þrjá en það er aðeins of mikið. Það að halda athygli nemenda í 80 mínútur er krefjandi en gefandi.“

Að sögn Þorgríms liggur ekki fyrir hversu lengi hann muni keyra fyrirlestur sinn og því hafi hann ákveðið að koma efninu í bókarform.

„Sjálfur hefði ég viljað lesa svona bók sem foreldri barna og ungmenna. Ég geri mér sífellt betur grein fyrir því hvað ég vissi lítið. Ég er líka súperglaður með hönnun bókarinnar. Halla Sigríður Margrétardóttir er á heimsmælikvarða.“

Síðustu árin hefur Þorgrímur notið stuðnings frá fyrirtækjunum Brim og N1 til að fara úr skóla í skóla með fyrirlesturinn sem er skólunum að kostnaðarlausu. „Og hefur verið öll þessi þrettán ár. Forstjórar þessara fyrirtækja gera sér grein fyrir sinni samfélagslegu ábyrgð og finnst tilvalið að leggja þessu verkefni lið. Þannig verður það vonandi á meðan ég hef neistann til þess að flakka og fræða.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×