Innlent

Ekki hægt að fækka smitum nema með frekari takmörkunum

Kjartan Kjartansson og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er þungur á brún þessa dagana vegna mikillar fjölgunar smitaðra.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er þungur á brún þessa dagana vegna mikillar fjölgunar smitaðra. Vísir/Vilhelm

Full ástæða er til þess að hafa áhyggjur af veldisvexti í greiningu kórónuveirusmitaðra undanfarna daga, að mati Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis. Hann segir ekki sé um að annað að ræða en að herða takmarkanir til þess að ná fjölda smitaðra niður.

Hundrað sjötíu og átta manns greindust smitaðir af kórónuveirunni í gær og hafa þeir aldrei verið fleiri á einum degi frá upphafi faraldursins. Þetta er í þriðja skiptið á hálfri viku sem slíkt met er slegið.

Þórólfur segir fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af því hvort að takmarkanir sem tóku gildi í dag dugi til þess að keyra smitin nægilega niður til þess að heilbrigðiskerfið ráði við þau. Fimm hundruð manna samkomubann tók gildi á miðnætti og á laugardag.

Fjórtán hundruð manns séu nú í einangrun með Covid-19 smit sem Þórólfur segir of mikið fyrir Covid-göngudeild Landspítalans að sinna. Þá sé daglegur fjöldi smitaðra erfiður fyrir rakningarteymi að halda í við. Erfitt sé að spá fyrir um framhaldið missi menn tökin á göngugeildinni eða smitrakningu. Fólk þurfi að vera undir það búið að smituðum haldi áfram að fjölga næstu daga.

Ekki er um nema eitt að ræða ef menn missa tökin á faraldrinum, að mati Þórólfs: að herða tökin. Það verði ekki gert nema með frekari takmörkunum.

„Að mínu mati fer að koma að því að það þurfi að leggja eitthvað til,“ segir Þórólfur spurður að því hvort hann sé með nýtt minnisblað til heilbirgðisráðherra í smíðum.

Hann vill ekki segja hvenær hann gæti lagt fram slíkt minnisblað eða hvers konar aðgerðir.

Þeir sem þurfa ekki á sjúkrahús geta samt glímt við langvarandi og alvarlegar afleiðingar

Þrátt fyrir að stór hluti samfélagsins sé bólusettur og að bóluefni hjálpi til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi segir Þórólfur að enn komi upp veikindi sem kerfið ráði ekki við.

Um helmingur þeirra sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús vegna Covid-19 sé bólusettur en það sé aðallega eldra fólk. Þó að bólusett fólk sé útskrifað fljótt af sjúkrahúsi þurfi það áfram að vera undir eftirliti.

Þrátt fyrir að fólk þurfi ekki að leggjast inn sjúkrahús geti Covid-19 veikindi haft alvarlegar og langvarandi afleiðingar.

Bendir Þórólfur á að yfirvöld hafi haft miklar áhyggjur af faraldrinum þegar á bilinu tíu til tuttugu manns greindust smitaðir á dag í fyrra. Þrátt fyrir útbreidda bólusetningu nú sé smitaðir tífalt fleiri en fyrir ári. Harðar aðgerðir hafi virkað vel þá en erfiðara verði að ná fjöldanum niður nú vegna þess hversu veiran er útbreidd. Það ætti þó að takast með sambærilegum aðgerðum við þær sem gripið var til í fyrra.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×