Fréttastofa hefur undir höndum svokallaða málavaxtalýsingu á talningu og meðferð kjörgagna í Norðvesturkjördæmi sem undirbúningskjörbréfanefnd sendi út í gærkvöldi til allra þeirra sem mætt hafa fyrir nefndina. Þar er fulltrúum yfirkjörstjórnar, talningarfólki, starfsfólki Hótels Borgarness, Lögreglustjóranum á Vesturlandi og fleiri gefið færi á að lesa yfir og koma með ábendingar ef eitthvað er rangt eftir haft.
Fjölmargar athugasemdir við talningu og meðferð kjörgagna koma fram í lýsingunni.
Fjölmargir höfðu lykla
Fram kemur að allnokkrir starfsmenn hafi haft lykla að dyrum inn í salinn þar sem kjörgögn voru eða höfðu aðgang að lyklum salarins.
Þá sýni engin eftirlitsmyndavél svæðið þar sem yfirkjörstjórn athafnaði sig og kjörgögn voru geymd á meðan fundarfrestun yfirkjörstjórnar stóð yfir. Fram kemur að á því tímabili sem yfirkjörstjórn var fjarverandi gengu fjórir starfsmenn hótelsins um fremri salinn en þegar fólkið hverfur úr mynd kemur til álita að það hafi farið inn í talningarsalinn eða staðið við inngang í talningarsalinn.
Ekki annað hægt en endurtelja
Fram kemur að ákveðið hafi verið að endurtelja atkvæðin vegna ábendinga Landskjörsstjórnar um að einhver atkvæði stemmdu ekki.
Þá kemur fram að mannleg mistök hafi valdið því að níu atkvæði hefði ranglega lent í atkvæðabunka C lista. Fleiri atkvæði fundust við endurtalningu eða voru mistalin en þess er oft getið í málavaxtalýsingunni.
Með hliðsjón af þessu taldi yfirkjörstjórn ekki annað fært en að endurtelja öll atkvæði
Loks segir kona sem starfaði við talninguna að yfirkjörstjórn hafi byrjað að telja nokkra listabókstafi áður en hún kom á svæðið. Aðspurð segist hún hafa viljað ð fá að telja öll atkvæðin og hefði gert athugasemd við oddvita yfirkjörstjórnar hefði hún vitað að hann ætlaði að byrja talninguna áður en hún mætti á staðinn. Samkvæmt þessu má draga í efa að öll atkvæði hafi verið talinn í endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi.