Innlent

Trúnaðar­menn Eflingar: „Þessar á­rásir í fjöl­miðlum eru bæði særandi og van­virðing við störf trúnaðar­manna.“

Þorgils Jónsson skrifar
Hart hefur verið deilt innan stéttarfélagsins Eflingar síðan Sólveig Anna Jónsdóttir sagði af sér sem formaður fyrir nokkrum dögum. Trúnaðarmenn félagsins deila á hana og fleiri stjórnendur Eflingar og segja í yfirlýsingu að fáheyrt sé að stjórnendur stéttarfélaga „ráðist á trúnaðarmenn innan eigin stéttarfélags með þeim hætti sem hefur átt sér stað“.
Hart hefur verið deilt innan stéttarfélagsins Eflingar síðan Sólveig Anna Jónsdóttir sagði af sér sem formaður fyrir nokkrum dögum. Trúnaðarmenn félagsins deila á hana og fleiri stjórnendur Eflingar og segja í yfirlýsingu að fáheyrt sé að stjórnendur stéttarfélaga „ráðist á trúnaðarmenn innan eigin stéttarfélags með þeim hætti sem hefur átt sér stað“. Vísir/Vilhelm

Trúnaðarmenn Eflingar, sem lögðu fram títtrædda ályktun um meinta vanlíðan starfsfólks á skrifstofu félagsins, segja engar ásakanir að finna þar um kjarasamningsbrot „heldur beinar lýsingar á upplifunum starfsfólks“.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu trúnaðarmanna sem fréttastofu barst í kvöld og Ragnheiður Valgarðsdóttir og Hjördís Ólafsdóttir skrifa undir. 

Téð ályktun er miðpunkturinn í þeirri orrahríð sem ríkt hefur innan Eflingar síðustu daga og varð til þess að formaðurinn Sólveig Anna Jónsdóttir sagði af sér og framkvæmdastjórinn Viðar Þorsteinsson sagði upp störfum.

Þar segir jafnframt að trúnaðarmenn hafi aldrei ætlað að reka málið í fjölmiðlum, en fáheyrt sé að stjórnendur stéttarfélaga „ráðist á trúnaðarmenn innan eigin stéttarfélags með þeim hætti sem hefur átt sér stað“.

„Þessar árásir í fjölmiðlum eru bæði særandi og vanvirðing við störf trúnaðarmanna.“

Atburðir síðustu daga hafi knúið trúnaðarmenn til að „varpa ljósi á staðreyndir þessa máls“. Það sé þó von trúnaðarmanna „að framkoma fyrrverandi stjórnanda verði ekki til að draga úr trúverðugleika verkalýðsbaráttunnar og varpa skugga á þá sigra sem þar hafa unnist“.

Yfirlýsingin í heild sinni er hér að neðan:

Við trúnaðarmenn starfsfólks á skrifstofu Eflingar sjáum okkur tilneydd til að svara þeim ásökunum sem á okkur hafa dunið síðustu daga. Ályktun sú sem við sendum á yfirmenn Eflingar í byrjun sumars var til að upplýsa þá um vanlíðan starfsmanna á skrifstofu og upplifarnir þeirra. Þar eru engar ásakanir um kjarasamningsbrot heldur beinar lýsingar á upplifunum starfsfólks.

Eitt af hlutverkum trúnaðarmanna er að koma á framfæri umkvörtunum starfsmanna til yfirmanna. Það gerðum við í þeim tilgangi að bæta þá vanlíðan sem fjölmargir starfsmenn Eflingar upplifðu.Trúnaðarmaður er rödd starfsmanna. Við teljum að allan tímann hafi við verið að sinna störfum okkar sem trúnaðarmenn að heilindum.

Eftir að við sendum frá okkur þessa ályktun í sumar höfum við trúnaðarmenn verið algjörlega hunsaðar af fyrrum formanni og framkvæmdarstjóra Eflingar. Það er fáheyrt að stjórnendur ráðist á trúnaðarmenn innan eigins stéttarfélags með þeim hætti sem hér hefur átt sér stað. Þessar árásir í fjölmiðlum eru bæði særandi og vanvirðing við störf trúnaðarmanna.

Það er okkar von að framkoma fyrrverandi stjórnanda verði ekki til að draga úr trúverðugleika verkalýðsbaráttunnar og varpa skugga á þá sigra sem þar hafa unnist. Það var aldrei ætlun okkar að rekja þetta mál í fjölmiðlum en atburðir síðustu daga gera það að verkum að við sjáum okkur knúin að varpa ljósi á staðreyndir þessa máls.


Tengdar fréttir

Segir fram­­göngu trúnaðar­manna ó­­verjandi

Framkvæmdastjóri Eflingar, sem sagði upp í kjölfar afsagnar Sólveigar Önnu Jónsdóttur, er sammála henni um það að starfsmenn félagsins hafi svipt hana ærunni opinberlega. Hann fer einnig hörðum orðum um trúnaðarmenn starfsmannahópsins.

Ekki vilji starfsmanna að Sólveig Anna segði af sér

Trúnaðarmenn hjá Eflingu segja í yfirlýsingu fyrir hönd starfsmanna stéttarfélagsins að ekki hafi verið vilji eða meining starfsmannafundar síðastliðinn föstudag að Sólveig Anna segði af sér formennsku.

Agnieszka ætlar ekki að segja af sér og segir kröfu Guðmundar svívirðilega

Agnieszka Ewa Ziólkowska hyggst ekki segja af sér sem varaformaður Eflingar og segir kröfu um það svívirðilega og lýsa fordómum í garð útlendinga. Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, sagði í gær að hún væri jafn ábyrg og aðrir í Eflingu og gerði því kröfu um afsögn hennar.

Skellti upp úr og segir Guðmund eiga að skammast sín

Sólveig Anna Jónsdóttir, sem sagði af sér sem formaður Eflingar á sunnudagskvöld, segist hafa hlegið þegar hún heyrði kröfu Guðmundar Baldurssonar þess efnis að Agnieszka Ewa Ziólkowska segði af sér sem varaformaður stéttarfélagsins. Sú krafa sé fyndin þegar verk Agnieszku og Guðmundar fyrir Eflingu séu borin saman.

Sólin að setjast á storma­­sama, tíðinda­­mikla, rót­tæka og her­­skáa for­­manns­­tíð Sól­veigar Önnu

Óhætt er að segja að formannstíð Sólveigar Önnu Jónsdóttir, sem sagði af sér sem formaður Eflingar í fyrradag, hafi verið viðburðarrík þótt hún hafi aðeins setið sem formaður í þrjú ár. Sólveig Anna boðaði herskáa og róttæka stéttabaráttu frá upphafi formannstíðar hennar, sem var bæði stormasöm og tíðindamikil.

Viðar fylgir Sólveigu og segir upp í dag

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, hyggst segja upp störfum í dag. Fylgir hann þar með Sólveigu Önnu Jónsdóttur, sem tilkynnti í gær að hún hefði sagt af sér sem formaður stéttarfélagsins.

Sól­veig Anna segir af sér vegna van­trausts­yfir­lýsingar

Sólveig Anna Jónsdóttir hefur tilkynnt stjórn Eflingar um afsögn sína sem formaður félagsins. Afsögnin kemur í kjölfar vantraustsyfirlýsingar sem starfsfólk Eflingar sendi Sólveigu Önnu, félaginu og fjölmiðlum á föstudag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×