Innlent

Sterkasta flug­freyja landsins býr í Hvera­gerði

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Anna Guðrún og þjálfari hennar, María Rún Þorsteinsdóttir hjá Crossfit Hengli í Hveragerði.
Anna Guðrún og þjálfari hennar, María Rún Þorsteinsdóttir hjá Crossfit Hengli í Hveragerði. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Anna Guðrún Halldórsdóttir í Hveragerði er líklega sterkasta flugfreyja landsins en hún gerði sér lítið fyrir á dögunum og setti þrjú Evrópumet og tvö heimsmet í Ólympskum lyftingum.

Anna Guðrún, sem býr í Hveragerði með fjölskyldu sinni æfir hjá Crossfit Hengil í bæjarfélaginu á milli þess sem hún starfar sem flugfreyja hjá Icelandair. Anna Guðrún gerði sér lítið fyrir og nældi sér í þrjú Evrópumet og tvö heimsmet í sínum þyngdarflokki á European Masters Weightlifting meistaramótinu, sem fór nýlega fram í Hollandi. Anna er 52 ára.

„Þetta var bara geggjað, ég náði þar fyrsta sæti í mínum þyngdarflokki og setti heimsmet og evrópumet, þannig að ég er bara drullu ánægð með þetta allt saman, ég er alveg í skýjunum yfir þessu. Þetta er búið að vera svolítið strembið að æfa með vinnu en hefst allt saman. Ég er að æfa að lágmark fimm sinnum í viku og það gengur bara mjög vel,“ segir Anna Guðrún.

Flugfreyjan og kraftakonan, Anna Guðrún í Hveragerði, sem nældi sér nýlega í þrjú Evrópumet og tvö heimsmet í sínum þyngdarflokki á European Masters Weightlifting meistaramótinu, sem fór fram í Hollandi í í Ólympskum lyftingum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Þjálfari Önnu Guðrúnar, sem er annar eigandi stöðvarinnar í Hveragerði er að sjálfsögðu mjög stolt af sinni konu.

„Já, hún koma að æfa hjá okkur fyrir níu árum síðan, labbaði hingað inn með Gunnari sínum og vildi koma að æfa, hún var nýflutt í Hveragerði. Við sáum strax að hún er mjög sterk, hún er gömul handboltakempa. Við vissum alveg að hún ætti möguleika á þessu heimsmeti og við settum upp með það að hún myndi setja heimsmet í snörun,“ segir María Rún Þorsteinsdóttir, Crossfit þjálfari Önnu Guðrúnar

Anna Guðrún hitar sig upp fyrir hverja æfingu með alls konar æfingum, hún er til dæmis mjög öflug í armbeygjum og góð í að sippa.

En hvernig er að vera flugfreyja og svona rosalega sterk?

„Það er bara geggjað, ég get allavega aðstoðað alla með handfarangur og annað, þannig að það er bara fínt,“ segir Anna Guðrún skellihlæjandi.

Anna Guðrún hefur unnið til fjölda verðlauna og var m.a. kjörin íþróttamaður Hveragerðisbæjar fyrir árið 2020.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×