Innlent

Grunur um að þremur hafi verið byrlað

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Málið er í rannsókn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.
Málið er í rannsókn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Vísir/Vilhelm

Grunur leikur á að þremur hafi verið byrluð ólyfjan á Akureyri í nótt, tveimur konum og einum karlmanni. Önnur kvennanna fannst nær rænulaus fyrir utan skemmtistað í bænum en vinir hinna tveggja komu þeim á slysadeild.

Þetta staðfestir Árni Páll Jóhannesson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. „Það fór lögreglumaður á bráðamóttökuna en við náðum ekkert að ræða við viðkomandi einstaklinga til þess að spyrja út í ferðir þeirra og fleira,” segir Árni, aðspurður um hvernig brugðist hafi verið við.

Hann segir rannsókn málsins á frumstigi og því ekki ljóst hvaða efni var um að ræða. Hann segir að almennt hafi ekki verið mikið um tilkynningar um byrlanir í bænum. Hins vegar sé að eiga sér stað vitundarvakning og fólk því hugsanlega meira á varðbergi.

„Það er hefur verið mikil umfjöllun um byrlanir og þá er eins og fólk sé meira meðvitað um þetta og fylgist kannski meira með vinum sínum á djamminu. Af þeim sökum er fólk kannski að horfa meira eftir þessu og ef vinirnir eru kannski ekki alveg bara í ölvunarástandi þá kannski er farið með þau á bráðamóttöku til skoðunar,” segir hann. Það sé jákvætt að fólk fylgist vel með.

„Það er bara mjög nauðsynleg, til dæmis miðað við það sem hefur verið að gerast í höfuðborginni og á skemmtistöðum að fólk sé meðvitað um þetta og fylgist betur með hvoru öðru.”



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×